Miðasala í kvikmyndahús féll um 8,8 prósent á heimsvísu árið 2024 miðað við árið á undan. Þetta er í fyrsta sinn sem miðasala dregst saman síðan Covid-faraldurinn geisaði. Þetta kom fram á blaðamannafundi Evrópsku hljóð- og myndmiðlunarstofnunarinnar (EAO) á Cannes-hátíðinni í dag.
„Árið 2024 voru seldir samtals 4,8 milljarðar bíómiða um allan heim, sem skilaði áætluðum tekjum upp á 28 milljarða evra,“ sagði Martin Kanzler, kvikmyndagreinandi EAO, en upphæðin jafngildir um fjórum billjónum íslenskra króna.
„Það eru 500 milljónum færri miðar en árið 2023,“ sagði Kanzler.
Frá árinu 2020, sem var einstaklega erfitt ár fyrir kvikmyndahús vegna samkomutakmarkana, hefur aðsókn á bíósýningar um allan heim verið að aukast. Þar til nú.
„Kannski höfum við náð nýju jafnvægi,“ velti Kanzler upp.
Aðsókn í kvikmyndahús er nú 68 prósent af því sem hún var árið 2019, síðasta árinu fyrir heimsfaraldurinn, samanborið við meira en 70 prósent árið 2023.
Í þessu erfiða rekstrarumhverfi stendur Evrópa sig betur í bíósókn en aðrir hlutar heimsins en í álfunni er aðsókn í kvikmyndahús 75 prósent af því sem hún var árið 2019, og var samdráttur í miðasölu þar aðeins 1,7 prósent árið 2024.
Í Kína, sem er stærsti kvikmyndahúsamarkaður í heiminum, féll aðsóknin aftur á móti um 22 prósent.
Innan Evrópu skera tvö lönd sig úr vegna óvenju mikillar bíósóknar og mikils fjölda kvikmyndahúsa en það eru Frakkland og Írland.