Deilur Adidas og Puma-bræðranna munu fljótt birtast á sjónvarpsskjám en unnið er að gerð heimildaþátta um bræðurna.
Í þáttunum verður kafað í sögu þýsku bræðranna og stofnun fyrirtækja þeirra en þeir stofnuðu saman skófyrirtæki sem hét Dassler Brothers Shoe Factory en vegna ósættis þeirra á milli lokuðu þeir fyrirtækinu og stofnuðu í kjölfarið tvö stærstu íþróttavörumerki heims.
Annar þeirra, Adolf Dassler, stofnaði Adidas og hinn, Rudolf Dassler, stofnaði Puma. Mikil samkeppni var á milli fyrirtækjanna í áraraðir m.a. kepptust þeir um að ná samningum við stærstu fótboltalið heims.
Árið 1970 náði deila bræðranna nýjum hæðum eftir að Puma gerði samning við fótboltamanninn Pélé. Var það gert eftir að bræðurnir gerðu samning sín á milli þess efnis að hvorugur þeirra myndi gera samning við íþróttamanninn.
Mark Williams, handritshöfundur þáttanna, sagði á kvikmyndahátíðinni í Cannes að þættirnir yrðu svipaðir Succession, vinsælum sjónvarpsþáttum sem eru byggðir á veldi Murdoch-fjölskyldunnar og deilu þeirra.