Tónlistarkonan Elín Hall hitar upp fyrir bandaríska rokkbandið The Smashing Pumpkins á tónleikum í Laugardalshöllinni 26. ágúst.
„Mikill áhugi var hjá innlendum böndum að hita upp en á endanum varð Elín Hall fyrir valinu,“ segir í tilkynningu frá viðburðarhöldurum.
Þess ber að geta að uppselt er á tónleikana.
Elín Hall er bæði þekkt fyrir tónlist sína og ýmis hlutverk á leiksviðinu og á hvíta tjaldinu.
„Eftir að hafa komið fjórum lögum í fyrsta sæti vinsældalista hér heima er hún á góðri leið með að koma sér á framfæri erlendis. Hún vinnur nú með Grammy-verðlaunahafanum Martin Terefe (Youngblud, Shawn Mendes) að nýju efni fyrir alþjóðlegan markað,“ segir í tilkynningunni.
„Sem leikkona hlaut hún verðlaun fyrir besta leik í kvikmyndinni When the Light Breaks (2024) á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Chicago og Edduverðlaun á Íslandi. Myndin var einnig valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Árið 2025 var Elín valin ein af rísandi stjörnum Evrópu.“