Enska leikkonan Rosamund Pike var beðin um að afklæðast í áheyrnarprufu fyrir hlutverk í James Bond-kvikmyndinni Die Another Day (2002). Um þetta tjáði hún sig nýverið í viðtali við Harper’s Bazaar. Variety greinir frá.
Í viðtalinu segist Pike hafa verið beðin um að „renna niður kjólnum sem [ég] var í, fara úr og standa þarna á nærfötunum“. Því neitaði hún hins vegar: „Ég hugsaði með mér: Nei, ég mun gera það ef ég fæ hlutverkið. En ég ætla ekki að gera það núna. Ég veit ekki hvað kom yfir mig.“ Ekki löngu eftir atvikið var Pike engu að síður ráðin og fór með hlutverk njósnarans Miröndu Frost á móti írska stjörnuleikaranum Pierce Brosnan sem leikur James Bond. Í kvikmyndinni er Miranda Frost gagnnjósnari sem þykist vera í liði með bresku leyniþjónustunni MI6. Á hápunkti myndarinnar er hún síðan tekin úr umferð af annarri Bond-stúlku, Jinx Johnson, sem leikin er af Halle Berry.