Birta Sólveig Söring Þórisdóttir mun fara með hlutverk Línu Langsokks í uppsetningu Þjóðleikhússins í haust. Sýningin Lína Langsokkur verður frumsýnd á Stóra sviðinu þann 13. september.
Stórleikkonurnar Sigrún Edda Björnsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir og Ágústa Eva Erlendsdóttir hafa farið með hlutverk Línu í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Þær komu saman í gærkvöldi til þess að bjóða Birtu velkomna í hópinn.
Birta Sólveig útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands í fyrra en hafði áður lokið söngnámi, að því er segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu. Hún þreytti frumraun sína í Þjóðleikhúsinu í söngleiknum Stormi og lék Auði í Litlu hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar. Í vetur lék Birta einni í sýningunum Frost og Yermu.
Þess er einnig getið að Birta hlaut tilnefningu til Grímunnar sem leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir fyrsta hlutverk sitt í atvinnuleikhúsi, Auði í Litlu Hryllingsbúðinni.
Þá segir um uppsetninguna: „Sýningin um Línu Langsokk verður heljarinnar sjónarspil sem mun henta breiðum aldurshópi. Agnes Wild er leikstjóri sýningarinnar en hún hefur vakið mikla athygli fyrir frábærar barnasýningar.
Karl Olgeirsson er tónlistarstjóri en skemmst er að minnast einstakra útsetninga hans á lögunum í Kardemommubænum fyrir skemmstu, reynsluboltinn Finnur Arnar hannar leikmynd og Eva Björg Harðardóttir er búningahöfundur. Elma Rún Kristinsdóttir er danshöfundur og Ásta Jónína og Björn Bergsteinn hanna lýsingu. Þórarinn Eldjárn er þýðandi verksins.“