Nýju verki eftir Ragnar Kjartansson, „Me and My Mother 2025“, hefur verið bætt við sýningu hans Brúna tímabilið sem hefur staðið opin í i8 Granda frá 18. janúar og mun standa til 18. desember. Brúna tímabilið er sýning þar sem fikt og tilraunamennska ráða ríkjum, að því er segir í tilkynningu, enda verður verkum skipt út nokkuð oft.
Verkið „Me and My Mother 2025“ er það sjötta í frægri seríu Ragnars sem hann gerir ásamt móður sinni, leikkonunni Guðrúnu Ásmundsdóttur. Gjörningurinn var tekinn upp á myndband í fyrsta skipti árið 2000 þegar Ragnar var 24 ára en þau mæðginin hafa endurtekið hann á fimm ára fresti síðan þá. „Í myndbandsverkinu hrækir Guðrún ítrekað á son sinn en sú gjörð kallar fram allt í senn húmor, hrylling og fáránleika,“ segir í tilkynningunni.
Þess má geta að Ragnar opnaði fyrir nokkrum dögum sína fyrstu einkasýningu í Eistlandi, A Boy and a Girl and a Bush and a Bird, í listasafninu Kumu í Tallinn. Hún stendur til 21. september.