Sigurvegari Eurovision í ár, hinn austurríski JJ, hefur kallað eftir því að Ísrael verði meinuð þátttaka í keppninni á næsta ári.
Í viðtali við spænska miðilinn El Pais sagðist söngvarinn harma það að Ísrael hefði fengið að taka þátt í ár þrátt fyrir stríðið á Gasasvæðinu.
Skipuleggjendur Eurovision hafa hlotið gagnrýni fyrir að leyfa Ísrael að vera með og mótmæli til stuðnings Palestínu voru áberandi yfir keppnishelgina í Sviss.
Hinn 24 ára gamli kontratenór sagði það vonbrigði ef Ísrael héldi áfram að taka þátt í keppninni. „Ég vil að Eurovision fari fram í Vín á næsta ári án Ísraels,“ sagði hann en tók fram að ákvörðunin væri hjá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva.
JJ kallaði einnig eftir auknu gegnsæi hvað varðaði símakosninguna eftir að ísraelska söngkonan Yuval Raphael hafnaði í öðru sæti. „Það var allt mjög loðið við kosninguna í ár.“
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hefur einnig gagnrýnt ísraelsk stjórnvöld harkalega og kallað eftir því að landinu verði meinuð þátttaka í Eurovision. „Við getum ekki leyft tvöföldu siðgæði að viðgangast þegar kemur að menningu,“ er haft eftir Sanchez, sem setur leyfi Ísraels til þátttöku í samhengi við þátttökubann Rússlands. Rússum hefur verið meinuð þátttaka í keppninni síðan 2022.