„Okkur langaði til þess að skapa vettvang í Reykjavík fyrir tónlistarverkefni sem dansa á mörkum tónlistar, gjörningalistar, dans og leikhúss. Við erum sjálf búin að starfa í samtímatónlist mjög lengi og höfum alltaf haft mjög gaman af því að vinna heildstætt með upplifun áhorfenda. Sem sagt við hugsum alltaf mikið um umgjörð tónleikanna, lýsingu og svo framvegis.
Þetta hefur í gegnum árin færst mjög í aukana og um leið erum við farin að vinna mikið þverfaglega þannig að verkefnin sem við vinnum snúast ekki lengur bara um tónlist heldur teygja sig inn á svið annarra listgreina. Þannig er myndmál, texti, búningar og sviðsmynd allt hluti af listaverkinu sem oftar en ekki er skapað í samsköpunarferli,“ segir Gunnhildur Einarsdóttir, sem ásamt eiginmanni sínum Matthias Engler, er listrænn stjórnandi kammerhópsins Ensemble Adapter en hópurinn stendur að baki nýrri viðburðaröð í samvinnu við Tjarnarbíó sem kallast Kolkrabbinn.
Á Kolkrabbanum má sjá verk sem dansa á mörkum tónlistar, gjörningalistar, dans og leikhúss. Kolkrabbinn er með alla anga úti og allt í öllu. Hann vill eitthvað óvenjulegt og skemmtilegt, ögrandi og nýtt.
Verkið Everything Everywhere er samstarfsverkefni Ensemble Adapter og bandaríska listahópsins Ensemble Pamplemousse en í sameiningu ætla þau að skapa sviðsskrímsli, eins konar meta-hljóðfæri. Útgangspunktur verksins er að átta sig á alhliða glundroða nútímasamfélags en það verður frumflutt hér á landi í kvöld, þriðjudaginn 27. maí, klukkan 20.30.
„Þetta eru sviðsverk þar sem tónlist er í forgrunni en þetta er ekki ópera. Við höfum notað orðið tónleikhús en það mætti líka lýsa þessu sem hljóðleikhúsi. Við höldum líka að fólk sem hafi áhuga á sviðslistum almennt gæti haft áhuga á þessu formati. Við sjáum það alla vega í Þýskalandi að þar koma okkar áhorfendur aðallega úr sviðslistum og myndlist frekar en úr tónlistargeiranum,“ útskýrir Matthias.
„Þess vegna höfðum við líka samband við Tjarnarbíó um samstarf. Húsið er fullkomið að stærð fyrir svona verkefni og er líka miðstöð sjálfstæðu leikhússenunnar í Reykjavík. Kolkrabbinn varð til og verður viðburðaröð þar sem fólk getur fengið að sjá óvenjuleg sviðsverk þar sem tónlist er í forgrunni. Verk sem eru sköpuð í samsköpunarferli tónskálda og flytjenda og oft í samvinnu listafólks úr ólíkum listgreinum.“
Þá segjast þau hafa þekkt listahópinn Ensemble Pamplemousse lengi og fyrst unnið með honum árið 2012.
„Þau hafa frá upphafi alltaf samið og flutt eigin verk og eru mjög vön að vinna í samsköpunarferli. Við hittumst í Philadelphia 2022 til að leggja drögin að þessu verki. Útgangspunkturinn var í upphafi allsherjar glundroði og kaos og hvernig maður áttar sig í heimi þar sem allt er mögulegt öllum stundum. Við hittumst nokkrum sinnum yfir tveggja ára tímabil, í Bandaríkjunum, hér á Íslandi og í Berlín og þróuðum verkið þannig hægt áfram. Það hefur tekið ýmsum breytingum og eftir á að hyggja erum við búin að átta okkur á því að það fjallar líka á einhvern hátt um millibilsástandið á milli lífs og dauða eða lífs og annars lífs,“ segir Matthias og hlær.
Everything Everywhere var frumflutt í Berlín í desember í fyrra og aðspurð segja hjónin viðtökurnar í Þýskalandi hafa verið mjög góðar.
„Það er alltaf svolítið erfitt að klára svona langt sköpunarferli, fínpússa alla kanta og taka lokaákvarðanir um hvernig hlutirnir eigi að vera, þannig að maður fer í einhvers konar trans og áttar sig ekki alveg á umheiminum á meðan. Við hlökkum mjög til að flytja verkið aftur hér og fá tækifæri til að breyta aðeins og fínpússa enn betur,“ segir Gunnhildur og bætir því við aðspurð að ekki sé komið í ljós hvort verkið verði í framhaldinu sýnt í fleiri löndum.
„Vesensfaktorinn á þessu verki er mjög hár, það þarf til dæmis fjórar hörpur, tvær bassatrommur, ruggustól og strengjakvartett leikinn af heimasmíðuðum róbótum. Þannig að það er smá krefjandi að túra með þetta allt. En okkur langar að sjálfsögðu að flytja það til að mynda líka í Bandaríkjunum.“
Á undanförnum árum hefur samtímatónlist þróast í auknum mæli í átt að samruna listgreina. Finnst ykkur samvinna listafólks úr ólíkum listgreinum almennt hafa aukist á síðustu árum?
„Auðvitað hefur alltaf verið til listafólk sem vinnur þvert á miðla og í samstarfi en okkur finnst það hafa færst mikið í vöxt á undanförnum árum í samtímatónlistarheiminum að vinna með myndmál, hreyfingar og texta. En það sem er kannski mesta breytingin er að mörkin milli flytjenda og tónskálda verða sífellt óljósari. Mörg verk, og þá er ég líka að tala um hefðbundin tónverk, eru unnin í samsköpunarferli flytjenda og tónskálds nú til dags og báðir aðilar gjarnan titlaðir höfundar,“ segir Matthias og tekur fram í kjölfarið að þeim finnist mjög gefandi að skapa verk í samstarfi við annað listafólk.
„Það er líka ákveðin pólitísk afstaða að afmá „hírarkíuna“ og skapa listaverk byggð á hugmyndum jafnræðis og samvinnu. Þetta er engin nýjung í leikhússtarfi en innan klassískrar tónlistar er „hírarkían“ rótgróin og það er mjög hressandi að brjótast út úr henni,“ segir Gunnhildur kímin.
Aðspurð að lokum segjast þau hjónin ávallt hafa í nægu að snúast enda ýmislegt á döfinni hjá Ensemble Adapter.
„Við erum að vinna að nokkrum mismunandi sviðsverkum sem við munum sýna í Evrópu á næstunni. Svo erum við farin að hlakka til næsta Kolkrabba sem verður í Tjarnarbíói í haust,“ segir Matthias án þess að vilja láta of mikið uppi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.