Önnur breiðskífa tónlistarmannsins Gosa, Á floti, kom út á stafrænu formi og á vínilplötu 15. maí og er hafið leiðandi stef á henni. Tónlistin er í tilkynningu sögð „indie“-popp eða „skrýtipopp“ undir fjölbreyttum áhrifum. Gosi er listamannsnafn Andra Péturs Þrastarsonar sem í símaskrá er titlaður tónlistartæknir og býr á Ísafirði.
Í tilkynningu frá Andra segir að platan fjalli lauslega um sjóara sem villist um höfin sjö og fjögur í viðbót og þurfi að takast á við stjörnustríð, bera drauma, ófreskjur, kvíða, skipbrot, seiðkarla, drauga, hlýnun jarðar, eigin tilfinningar, tilkynningaskyldu og – síðast en ekki síst – hafið. Á floti troði marvaðann í hafsjó af þjóðsagnaverum og berum draumum og sé Gosi „pækluð í djúpinu, fersk eins og hafgola og svöl eins og frosin rækja úr Kampa“.
Andri segir í samtali við blaðamann að hann hafi starfað sem Gosi í 10 ár. „Þetta byrjaði þegar ég fór í nám í Hollandi,“ segir hann en námið hét á ensku „composition and music production“ eða tónlist og tækni.
„Ég var búinn að vera i alls konar hljómsveitabrölti og -stússi með fullt af fólki og var svo kominn í nýtt land þar sem ég þekkti ekki neinn. Þetta byrjaði upphaflega sem eins manns hljómsveit, ég fór að fikta við raftónlist og svoleiðis. Eftir að ég kom aftur heim til Íslands, að loknu námi í tónlistartækni, fór ég aftur að skrapa saman í hljómsveit og á seinustu tónleikum sem við héldum var þetta alveg níu manna hljómsveit,“ segir Andri. Hljómsveitin sé því að nálgast það að vera stórsveit. „Ég hef alltaf reynt að hafa sem flesta með. Þótt ég sé kannski heilinn í Gosa er hljómsveitin hjartað,“ svarar Andri.
Er Gosi hljómsveit eða er Gosi tónlistarmaður?
„Mér hefur alltaf fundist gaman að hafa þetta í lausu lofti, segja ýmist „hljómsveitin Gosi“ eða að ég sé Gosi. Mér finnst það mega vera fjölbreytt,“ sarar Andri og bætir við að hljómsveitin Gosi sé stundum fleiri en einn Andri en aldrei færri. Nafnið hafi upphaflega tengst mannspilinu kunna, gosanum, og að vera „jack of all trades”, þ.e. hæfileikaríkur á mörgum sviðum og þúsundþjalasmiður.
Andri hefur áður gefið út breiðskífu, Útúrsnúning, og einnig styttri skífu sem hann segir hafa verið „næstum því plötu“. Á plötunni nýju, Á floti, er hafið sagt leiðarstef. Hvers vegna skyldi það vera?
„Maður er náttúrlega alltaf með hafið fyrir augunum hérna á Ísafirði og afi var sjómaður og átti líka netagerð þannig að sjórinn er alltaf nálægt manni. Ég hef mjög gaman af tungumáli, alls konar orðatilækjum og það er svo mikið til tengt sjónum að maður fær þetta bara beint í æð,“ svarar Andri.
Hefurðu farið á sjóinn, stundað sjómennsku?
Andri hlær og svarar neitandi, hann hafi aldrei migið í saltan sjó. „Ég er listamaðurinn sem dáist að hafinu úr fjarlægð,“ segir hann og það næsta sem hann hafi komist sjómennsku sé að vinna eitt sumar við að breiða út saltfisk upp á gamla mátann, á steinhellur. Andri segist að vísu hafa farið einu sinni á trillu með afa sínum en ælt allan tímann eins og múkki.
Lögin á plötunni eru ansi langt frá íslenskum sjómannalögum, alla vega þeim sem eldri eru. Þú ert meðal annars að syngja um ófreskjur, drauga, hlýnun jarðar, kvíða og seiðkarla …
„Já, en þeir sjómenn sem ég þekki til eru margir hverjir mjög sagnakærir,“ svarar Andri. Þeir lesi bækur í frístundum og séu margir hverjir fjölfróðir. „Stundum líka hjátrúarfullir: þótt ég vilji ekki alhæfa um alla þá var þessi sjómaður, sem ég samdi plötuna um, sagnakær og trúgjarn á ýmislegt.“
Eitt lag á plötunni segir Andri vera „harðkjarna“ sjómannavals. „Máninn“ nefnist það lag. „Það þurfti að vera einn vals á plötunni,“ segir Andri kíminn.
Þrjár söngkonur þenja raddböndin á plötunni, þær Marta Sif Ólafsdóttir sem er eiginkona Andra, Salóme Katrín Magnúsdóttir og Sara Hrund Signýjardóttir. Andri segist að mestu sjá um hljóðfæraleik.
„Eiríkur Örn Norðdahl leikur á bassa í tveimur lögum og Baldur Páll leikur á trommur í þeim líka,“ segir Andri um aðra hljóðfæraleikara og nefnir nokkra til viðbótar, m.a. Rúnu Esra sem leikur á harmonikku. „Það er gaman að hafa marga með,“ segir hann um mannvalið.
Á uppstigningardag, 29. maí næstkomandi, verður útgáfu plötunnar fagnað með pomp og prakt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. „Við erum með sterkan tónlistarskóla og það er fullt af fólki sem hefur unun af þessu,“ segir Andri að lokum um hið blómlega og skapandi tónlistarlíf sem finna má þar fyrir vestan.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.