Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg verður að vanda haldin um hvítasunnuna á Patreksfirði. Auk heimildarmynda verður boðið upp á ýmsa viðburði og má af þeim nefna skrúðgöngu, plokkfisksveislu og limbókeppni.
Á vef hátíðarinnar segir að á Skjaldborg séu sýndar heimildarmyndir sem annars kæmu varla fyrir augu almennings og beri „jafna virðingu fyrir hinu smáa, stóra, skrýtna og fokdýra“. Efnistök og umfjöllunarefni eru að vanda mjög fjölbreytt og myndir af ólíkri lengd, allt frá örstuttum yfir í heimildarmyndir í fullri lengd. Skjaldborg hefur þá sérstöðu að vera eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildarmyndir og eru höfundar þeirra allt frá byrjendum yfir í reynslubolta.
Dómnefnd hátíðarinnar er að vanda skipuð fagfólki, þeim Maks Pilasiewicz, Ásu Baldursdóttur og Sighvati Ómari Kristinssyni.
„Þetta er í 18. sinn sem hátíðin er haldin og hefði verið það 19. ef ekki hefði verið heimsfaraldur,“ segir Kristín Andrea Þórðardóttir, einn af stjórnendum hátíðarinnar. Hátíðin sé því rótgróin og önnur elsta starfandi kvikmyndahátíðin á landinu.
Fimm myndir í fullri lengd verða frumsýndar á hátíðinni og það allt íslenskar, átta heimildastuttmyndir og einnig verða fimm verk í vinnslu kynnt. Á vef hátíðarinnar má líka sjá yfirlit yfir verk heiðursgestsins og þá viðburði sem í boði verða, m.a. tvo sem Kvikmyndasafn Íslands stendur fyrir.
Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er ítalska leikstýran Alessandra Celesia, sem býr ýmist í París eða Belfast og hefur bæði lagt stund á heimildarmyndagerð á Norður-Írlandi og Ítalíu. Celesia er menntuð í bókmenntafræði og leiklist og hóf feril sinn í sviðslistum áður en hún sneri sér að heimildarmyndagerð. Mun hún halda fyrirlestur laugardaginn 7. júní, að lokinni sýningu á verðlaunamynd sinni The Flats eða Íbúðirnar frá 2024 sem hefur verið sýnd á fjölda hátíða. Hún hlaut aðalverðlaun CPH:DOX í fyrra og IFTA, írsku kvikmyndaakademíuverðlaunin, fyrir heimildarmynd ársins.
Kristín segir The Flats einkar áhugaverða mynd og m.a. fjalla um hvernig áföll fari milli kynslóða og hvaða afleiðingar það hafi í samfélagslegu tilliti. „Þetta er mynd sem fjallar um afleiðingar af mörg hundruð ára kúgun og ofríki og svo andófi og öllu því sem gerist í kjölfarið,“ segir hún. Á vef hátíðarinnar segir að myndin fjalli um Joe nokkurn, kaþólikka sem búi í Belfast og endurleiki æskuminningar sínar í myndinni frá tímum The Troubles eða Vandræðanna, hins myrka tímabils í sögu Norður-Írlands og átakanna þar á árunum 1968-1998. „Þetta tímabil hefur í raun aldrei verið gert upp,“ segir Kristín um þetta tímabil í sögu Norður-Írlands. Önnur mynd eftir Celesia, The Bookseller of Belfast eða Bóksalinn í Belfast frá árinu 2012, segir af John Clancy, fyrrverandi bóksala á eftirlaunum, og samferðafólki hans í Belfast sem á sér vonir og þrár út fyrir stöðu og stétt, eins og segir á vef Skjaldborgar.
Þegar litið er yfir dagskrána virðist mikið verið að fjalla um baráttu af ýmsu tagi og staðfestir Kristín þær vangaveltur blaðamanns. „Það er nefnilega svolítið mikið af aktívisma, uppreisn eða „einum á móti einhverju“, það er ákveðið þema. Það myndast alltaf einhver þemu, það er alveg magnað. Einu sinni vorum við t.d. með nokkrar myndir um ömmur,“ segir Kristín kímin. Hvað veldur líkum tilviljunum er erfitt að segja en að þessu sinni virðist alls konar barátta og uppreisn einkenna margar myndanna. „Svo erum við líka með svolítið nostalgíuþema,“ segir Kristín og nefnir sem dæmi Paradís amatörsins eftir Janus Braga Jakobsson. „Það er mynd sem er að mestu leyti unnin upp úr og innblásin af heimamyndum og heimamyndaefni,“ segir Kristín, en myndin er byggð á efni frá mönnum úr fjórum kynslóðum sem hafa deilt lífi sínu á YouTube.
Ein þeirra mynda sem kynntar verða sem verk í vinnslu á Skjaldborg er Menningarsmyglarinn eftir Jón Bjarka Magnússon og Hauk Má Helgason sem fjallar um Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamann og skáld sem lést í byrjun árs af völdum krabbameins, aðeins 48 ára. Sumarið 2017 fylgdu vinir hans honum eftir með myndavél þegar hann tók við næturvörslu í jarðböðunum við Mývatn. „Myndefni þar sem hann smyglar ljóðum á milli skúringa ákallar nú kvikmyndagerðarmennina,“ segir um myndina á vef Skjaldborgar. „Auk þess erum að gera honum mjög hátt undir höfði,“ segir Kristín um Ásgeir heitinn, menningarsmyglarann góða. „Hann var fastagestur á hátíðinni og lagði mikla áherslu á að ná Skjaldborg á hverju ári, þrátt fyrir að hann byggi í Prag. Hann skrifaði virkilega góðar greinar um hátíðina í gegnum árin fyrir hina ýmsu miðla. Hann var ofboðslega skarpur greinandi og naskur á að finna tengingar á milli verka og á hátíðinni og tengingar við umheiminn. Að tengja okkur út í heim. Við erum með allra síðustu eintökin af ljóðabókinni hans á hátíðinni og allur ágóði af sölunni rennur í dánarbúið sem sér um óútgefin verk. Þetta fer í að koma út óútgefnum verkum hans.”
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.