„Þessi plata er búin að vera í vinnslu undanfarin fjögur ár og sum lögin dró ég upp úr skúffu enn lengra aftur í tímann, einhver samdi ég þegar ég bjó í Los Angeles og önnur þegar ég bjó í Kaupmannahöfn,“ segir tónlistar- og leikkonan Silja Rós sem sendi nýlega frá sér sína þriðju plötu, … letters from the past.
„Ég fann að tónlistarstíllinn minn breyttist mikið eftir að ég lærði djass í FÍH, þá fór ég meira að sækja innblástur í mjúka hljóðheiminn í sálartónlist og djasstónlist, og blanda honum inn í poppheiminn sem ég vann mikið með í Köben. Í undirtóni nýju plötunnar er því dass af djassi, kryddað með R&B, en þar er líka popp og sálartónlist, allt í bland. Ég gaf mér mjög góðan tíma í að finna minn hljóðheim, en ég er mikið fyrir mjúka tónlist,“ segir Silja Rós sem var með afar skýra hugmynd um hvernig hún vildi að tónlistin kæmi til með að hljóma á nýju plötunni.
„Ég leyfði mér að dúlla mér í hlutunum, ég var ekkert að flýta mér, heldur passa að gera þetta fyrst og fremst fyrir mig, en ekki aðra. Það er svo auðvelt að detta í þá hugsun að búa til eitthvað sem virkar best fyrir spilun og velgengni, en ef maður fer eingöngu eftir formúlu þá verða hlutirnir kannski síður einlægir og minna maður sjálfur.
Mér fannst mikilvægt að treysta því að stíllinn minn og þessi nýja plata ætti alveg jafn mikið pláss skilið og eitthvað sem væri meira meginstraums. Ég og kærastinn minn, Magnús Dagsson gítarleikari, unnum útsetningarnar saman og við gáfum okkur góðan tíma í þær, enda erum við með okkar eigið stúdíó. Þar gátum við gleymt okkur tímunum saman, til dæmis við raddútsetningar, en ég elska góðar raddútsetningar,“ segir Silja Rós og bætir við að auk hennar sjálfrar hafi Bergrós Halla séð um bakraddir á nýju plötunni.
Þegar Silja Rós var að byrja að vinna að plötunni þá fannst henni hún ekki hafa mikið að segja, svo hún ákvað að horfa til baka, leita fanga með því að gramsa í fortíðinni.
„Þar fann ég ýmislegt, en ég hef haldið dagbækur í mörg ár og grúskaði í þeim, þar eru hugleiðingar mínar, ljóð og gömul lög. Ég fór að rannsaka aðeins fortíð mína, hvað væri ennþá ósagt, hvort þar leyndust sögur og atburðir sem ég gæti unnið með. Ég sótti mér innblástur í þessar dagbækur,“ segir Silja Rós og bætir við að hún hafi verið vön að semja mest um erfiðar tilfinningar og nota tónlistarsköpunina sem einhvers konar meðferð, á heilandi hátt.
„Ég þurfti að læra að semja líka um góðu hlutina, því ég hef verið mjög hamingjusöm og í góðu sambandi undanfarið, lifað stabílu lífi, en svo getur maður alltaf líka sótt efni með því að líta til baka og fengið innblástur þaðan. Þannig kom titill plötunnar til, ég sæki gömul bréf til fortíðar og bý til eitthvað úr þeim, hvort sem það er falleg fortíð eða ekki. Þótt textarnir fjalli um ástartilfinningar, höfnun og fleira, þá er þetta fyrst og fremst leit mín að sjálfri mér. Þetta var mjög heilandi ferli, að líta til baka og rannsaka, því þegar maður er að vinna í sjálfum sér þá er rót vandans kannski langt aftur í fortíðinni, jafnvel í einhverju atriði sem maður á eftir að vinna úr. Þá er svo hollt að skoða og nota það sem sögu til að segja, og það er líka heilandi að fara í gegnum það, sjá bæði sinn eigin vöxt og þróun sem manneskju, hvað maður vill í lífinu.
Í upphafslögunum á plötunni er ég að tækla erfiðar tilfinningar, en í miðri plötu er vendipunktur með laginu „Curtain Call“, sem segir frá því þegar maður vill skilja fortíðina eftir og byrja að byggja sig upp aftur. Seinni hluti plötunnar gengur meira út á að líta í kringum sig á allt það fallega og þakka fyrir fortíðina, en leyfa henni að vera þar. Finna sjálfa sig aftur og læra að elska sig í gegnum alla lífsreynsluna.“
Silja Rós starfar aðallega við tónlist, leiklist og handritaskrif, og segir að fyrir vikið sé misjafnlega bjart.
„Þetta er ekki stabílasta vinnuumhverfið og þar þarf ég að takast á við ýmiskonar hafnanir. Þá hættir mér til að missa móðinn, en þá er mikilvægt að komast í gegnum það. Í ferlinu við vinnslu plötunnar ákvað ég nokkrum sinnum að hætta sem tónlistarkona, en það entist aldrei meira en kannski í viku eða tvær, enda hef ég alltaf vitað að ég er tónlistarkona og leikkona, það er nákvæmlega það sem ég vil gera í lífinu. Auðvitað er þetta ótrúlega krefjandi bransi og það er auðvelt að spyrja sig öðru hvoru hvort þetta sé þessi virði og hvort ég sé að setja sjálfsvirði mitt of mikið í vinnuna. Ég þarf að passa að taka það ekki of persónulega þegar ég fæ einhverja höfnun eða þegar hlutirnir ganga ekki eins og ég hafði séð fyrir mér.“
Silja Rós er með gott fólk með sér í hljómsveitinni sem spilar á plötunni nýju, og sumir hafa verið lengi með henni í tónlistinni.
„Baldur Kristjánsson bassaleikari hefur verið með mér alveg frá því ég byrjaði í tónlist fyrir 15 árum. Magnús kærastinn minn spilar á gítar og rhodes á þessari plötu, en hann spilaði líka á báðum fyrri plötunum mínum. Þeir tveir hafa verið lengst með mér í bransanum, en hinir hafa bæst við hljómsveitina undanfarin fjögur ár, þeir Kristófer Nökkvi og Bergur Einar trommuleikarar, Kjalar píanóleikari og söngkonan Bergrós Halla,“ segir Silja Rós sem flutti heim til Íslands fyrir þremur árum, en hún lærði leiklist í Los Angeles og starfaði þar eftir útskrift í eitt ár, flutti síðan til Kaupmannahafnar og bjó þar í tvö ár og starfaði þá mest í tónlistarsenunni.
„Hér heima hef ég aðallega sinnt tónlistinni, en líka verið að leika og skrifa handrit. Ég verð með tónleika í Tónabíói í Reykjavík 5. júní kl. 20 og frítt inn, og ég ætla að fylgja plötunni eftir í sumar með minni tónleikum hér og þar. Ég enda með útgáfutónleikum í haust og það er bjart fram undan, ég verð að spila mikið og taka leiklistarverkefni inn á milli.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.