Kanadíska söngkonan og hljómsveitarstjórinn Barbara Hannigan hlaut á dögunum hin virtu sænsku Polar-tónlistarverðlaun en auk hennar voru verðlaunuð bandaríski tónlistarmaðurinn Herbie Hancock sem og breska hljómsveitin Queen. Hannigan stjórnar tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld en hún tekur við sem aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar haustið 2026.
Blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af Hannigan þar sem hún var nýlent á Íslandi en hún segir að viðurkenningin hafi komið sér mjög á óvart.
„Ég var bæði undrandi og djúpt snortin og tók við henni af auðmýkt. Maður ósjálfrátt spyr sig hvort maður sé reiðubúinn fyrir viðurkenningu sem þessa. Á ég hana skilið? En á sama tíma held ég að maður verði að gangast við henni. Það er ekki hægt að mæta á svona viðburð hugsandi með sér að maður eigi þetta ekki skilið.
Maður fær frá þessu ákveðið hugrekki og sýnileikinn sem fylgir í kjölfarið felur einnig í sér meiri ábyrgð og til að axla þá ábyrgð þá þarf maður einmitt hugrekki. Þegar ég sneri aftur til starfa eftir afhendinguna fannst mér ég sterkari, ég hef aldrei fundið það fyrr. Líkt og ég fengi nýtt ábyrgðarhlutverk með því að vera komin í hóp þeirra sem ég hef alltaf litið upp til,“ segir Hannigan.
Hvernig er að vera komin aftur til Íslands?
„Það er frábært. Ég hef verið með annan fótinn hér vegna funda en er mjög spennt að skapa tónlist með hljómsveitinni og það veitir mér mikla ánægju og orku að vinna með henni á nýjan leik. Dagskráin í kvöld einkennist einna helst af gleði og fögnuði og gefur okkur tækifæri til þess að fagna því sem við erum þakklát fyrir.“
Hannigan segir að á efnisskránni séu verk sem margir ættu að kannast við og að andi leikhússins svífi yfir vötnum en þar má finna verk á borð við „Music for the Theatre“ eftir Aaron Copland og kaflar úr „Gaité Parisienne“ eftir Jacques Offenbach. „Undir lokin syng ég tvö lög við undirspil allrar hljómsveitarinnar og á einum tímapunkti mun hún meira að segja taka undir með mér í söng. Þetta verða mjög hjartnæmir tónleikar en að sama skapi mun fögnuðurinn vera í fyrirrúmi.“
Aðspurð um hvernig íslenska sinfónían er í samanburði við aðrar hljómsveitir sem hún hefur starfað með segir hún hljómsveitina búa yfir ríku ímyndunarafli sem sé gefandi.
„Hver sinfónía er einstök og frábrugðin öðrum sinfóníum. Mér finnst það til dæmis merkilegt hvernig þessi sveit bregst við uppástungum sem hverfast um myndmál, myndlíkingar og liti. Hljómsveitin sem heild býr yfir ríku ímyndunarafli. Ég elska það því þannig vil ég einna helst starfa, með frjálst flæði hugmynda sem við mótum saman á æfingum þar til við erum með eitthvað í höndunum sem er bæði spennandi og dýnamískt.“
Hannigan segist hlakka til að taka við sem aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníunnar. „Hjarta mitt er hlýtt af hamingju. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig nú að geta komið hingað og tekið við þessari stöðu sem ég geri af alúð og ábyrgð, bæði gagnvart hljómsveitinni en líka gagnvart gestum Sinfóníunnar, hlustendum heima í stofu og unga fólkinu. Ég tek þessu alvarlega. Þetta nýja hlutverk hefur nú þegar fengið mikið pláss í lífi mínu og þegar ég tek við mun þetta verða minn aðalfókus,“ segir Hannigan sem vill þó ekki gefa upp hvaða verk verða flutt þegar hún tekur við keflinu. „Það sem ég get sagt er að allt verður vandlega uppbyggt, hugmyndaríkt, litríkt og mun koma beint frá hjartanu.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.