Álitsgjafar telja ólíklegt að Harry prins og Karl kóngur nái nokkurn tíman sáttum. Þetta herma heimildir The Post.
„Það er engin leið til baka,“ segir konunglegi álitsgjafinn Hilary Fordwich í viðtali við Fox News.
„Karli þykir vænt um Harry en finnst áhættusamt að opna á nánari samskipti við hann. Vilhjálmur prins hefur nákvæmlega engan áhuga á að sættast við hann.“
Þá er sagt að ráðgjafar nærri kónginum ráðleggi honum að friðmælast ekki við Harry á þann hátt að það komi niður á Vilhjálmi prins á nokkurn hátt þegar hann mun svo taka við krúnunni. „Það er enginn nálægt honum sem vill að hann sættist við Harry og Kamilla kýs að blanda sér ekki í þessi mál.“
„Sárin eru svo djúp að Vilhjálmur hefur algerlega lokað á Harry. Karl vill ekki fara gegn vilja sonar síns sem er verðandi kóngur. Það varð mikill trúnaðarbrestur sem erfitt er að fyrirgefa.“
Stutt er síðan Harry prins fór í viðtal við BBC sem sagt er hafa útrýmt öllum vonum um að endurheimta traust þeirra á milli.
„Kóngurinn einfaldlega treystir honum ekki. Þetta átti ekki að vera árás en hægt að túlka á þann veg og það gerir Karli erfiðara fyrir að leita sátta.“