„Eftir því sem par er lengur saman stækkar ástin, en um leið líka vandamálin,“ segir danski leikstjórinn Niclas Bendixen í viðtali við Morgunblaðið. Hann frumsýndi nýverið rómantísku gamanmyndina Róm hér á landi og náði blaðamaður tali af honum að loknu diskóballi fyrir frumsýningargesti í Bíó Paradís.
Róm segir frá hjónunum Gerdu og Kristoffer, sem ferðast saman til Rómar í tilefni af 40 ára brúðkaupsafmælinu sínu, borgarinnar þar sem Gerda var eitt sinn sem upprennandi listnemi. Áður en langt um líður rekst hún hins vegar á fyrrverandi kennarann sinn, Johannes, og í kjölfarið taka leyndarmál fortíðarinnar að leita upp á yfirborðið.
Í samtali við blaðamann viðurkennir Bendixen að umfjöllunarefnið sé honum persónulegt og byggi að hluta til á eigin reynslu hans af hjónabandinu, en hann er giftur dönsku leikkonunni Trine Dyrholm. „Nú höfum við Trine verið saman í 20 ár, og þegar maður er saman í svo langan tíma er það ekki alltaf hamingjusamt. Það er fullt af vandamálum. Það gæti vissulega orðið þunglyndislegt að gera kvikmynd um það,“ segir hann og hlær léttilega. „En ég vildi að myndin yrði gamanmynd samtímis og hún tæki hjónabandið alvarlega og það væri ekki verið að láta eins og þetta sé allt dans á rósum. Svo fannst mér eitthvað fallegt við það að sögupersónurnar væru aðeins eldri,“ segir Bendixen.
Í myndinni eru Gerda og Kristoffer einmitt bæði komin á áttræðisaldur. „Þau eru komin lengra í lífinu en ég og hafa gengið í gegnum allt saman. Mig langaði til að fjalla um lífið í allri sinni lengd, þegar það er ekki svo mikill tími eftir. Þegar börnin eru flutt að heiman og það eru engar skyldur lengur sem þarf að sinna. Í rauninni gætu Gerda og Kristoffer verið alveg frjáls ef þau vildu það, svo það er næstum eins og þau séu orðin ung á ný. Ég kem akkúrat svolítið fram við þau eins og tvo unglinga,“ bætir hann við og brosir út í annað.
Talið berst að afbrýðiseminni sem er meginviðfangsefni myndarinnar. „Afbrýðisemi er öðruvísi þegar maður er kominn á þennan aldur. Hvort að einhver sofi hjá einhverjum öðrum eða ekki, það er ekki aðalmálið, heldur snýst þetta meira um þessi stóru svik þegar þú hélst að þú þekktir hina manneskjuna fullkomlega en það sýnir sig að svo er ekki. Svikin í því þegar hinn aðilinn á skyndilega eitthvað sem þú getur aldrei eignast. Eitthvað sem hefur kannski alltaf verið þarna, þú vissir bara ekki af því. Í myndinni þarf Kristoffer að læra að samþykkja það svo að hann geti lifað lífinu við hlið Gerdu og fengið hana til að blómstra í stað þess að hún visni í nærveru hans. Og kannski eru Kristoffer og Gerda sálufélagar, hver veit. Ég vildi að endirinn væri opinn og áhorfendur verða þess vegna sjálfir að gera upp við sig hvað þeim finnst.“
Auk þess að vera leikstjóri er Bendixen einnig danshöfundur og hannaði til að mynda dansatriðin í dönsku verðlaunamyndinni Druk (2020). Í Róm er dansinn þéttofinn frásögninni. „Dansinn verður táknmynd fyrir þrá Gerdu og sömuleiðis fyrir frelsið. Það að stíga út á dansgólfið krefst þess nefnilega að þú farir yfir ákveðin mörk í sjálfum þér. Sumir fara létt með það, eins og Gerda, en fyrir aðra er það erfiðara.“
En af hverju Róm? „Já, það er góð spurning. Kannski hefði myndin allt eins getað gerst í París. Eða nei, samt ekki. Það sem er með Róm er að sagan sem ég er að segja hefur verið að eiga sér stað þar endurtekið í meira en tvö þúsund ár. Þetta er ekki neitt nýtt fyrir Róm þó að þetta sé nýtt fyrir Gerdu og Kristoffer. Þannig verður þetta alltaf. Svo að svarið er eiginlega af því að Róm er gömul. Þess vegna verður rómverskur skylmingaþræll – eða kannski réttara sagt maður í búningi sem rómverskur skylmingaþræll – líka rödd borgarinnar í myndinni. Og hann er í sífellu að reyna að segja aðalpersónunum sannleikann um það út á hvað lífið gengur.“
Sannleikurinn er líka stórt þema í myndinni. „Nákvæmlega. Hvað verður um þann sem hefur logið allt sitt líf, hvað þá þann sem hefur alla tíð lifað í lygi? Svo má líka bæta við að þetta er allt saman innblásið af raunverulegum atburðum, ekki í mínu lífi heldur hjá fólki sem ég þekki. Sagan fjallar í grunninn um það að búa með manneskju sem á sér stóra ástríðu, eins og Gerda með listina en það gæti líka átt við um eitthvað annað. Ástríða hins er eitthvað sem þú getur aldrei almennilega öðlast hlutdeild í. Þú munt alltaf standa fyrir utan og horfa inn. Ef þú skilur það ekki, þá taparðu. Og ef þú sleppir takinu, þá taparðu líka. Fyrir mitt leyti segi ég oft að ég og konan mín lifum hvort okkar lífi út af fyrir sig, saman. Sem sagt, það er mikilvægt að gefa hvort öðru rými en huga um leið að sambandinu.“
Myndirðu segja að þetta væri femínísk mynd? „Já, eins og allar mínar myndir eru. Hún hverfist um það hvernig hægt er að lifa saman sem maður og kona á jöfnum grundvelli. Að báðir aðilar séu jafnir í sambandinu.“
Nú fjallar myndin eins og þú sagðir um fólk sem komið er á seinni hluta ævinnar. Er þetta að þínu mati aldurshópur sem litið er framhjá þegar kemur að rómantískum gamanmyndum? „Ég hugsaði ekki einu sinni út í það á meðan ég var að gera kvikmyndina, en eftir að hún kom út hef ég fengið mjög jákvæðar viðtökur frá einmitt þessum aldurshópi. En fyrst og fremst fannst mér spennandi að fjalla um þennan aldur af því að ég er sjálfur á leiðinni þangað. Það eru stór tímamót að hafa verið giftur í 20 ár og nú horfi ég fram til næstu 20 ára og velti fyrir mér hvað þau muni bera í skauti sér. Það finnst mér mjög spennandi.”
Áður en blaðamaður kveður og hleypir Bendixen aftur út á dansgólfið í Bíó Paradís, þar sem frumsýningargestir bíða hans spenntir, innir hún hann eftir því hvað sé fram undan. Það kemur í ljós að Bendixen er þegar farinn að vinna að næstu kvikmynd og aðdáendur Rómar geta því strax farið að láta sig hlakka til. „Ég vil ekki gefa upp of mikið, en hún fjallar líka um þessi stóru lífsdílemmu. Hún gerist í Danmörku, og reyndar líka aðeins í París.“
Upplýsingar um sýningartíma Rómar er að finna á bioparadis.is.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.