Kynsegin leikari var í fyrsta sinn valinn besti leikari í aðalhlutverki á bandarísku leikhúsverðlaunahátíðinni Tony Awards, sem haldin var á sunnudag. Cole Escola var verðlaunað fyrir frammistöðu sína í leiksýningunni Oh, Mary! sem fjallar um eiginkonu Abrahams Linkoln.
Tekið hefur verið fram að Escola hafði sjálft samþykkt að vera tilnefnt í flokki karlkyns leikara í aðalhlutverki. Hán hafði því betur en stórleikarinn George Clooney, sem ýmsir höfðu spáð sigri.
Leikstjóri verksins, Sam Pinkleton, hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórn. „Þú hefur kennt mér að skapa það sem maður elskar og ekki það sem maður heldur að fólk vilji sjá,“ sagði hann í ræðu sinni, og er í frétt AFP sagður hafa talað beint til Escola sem sat tárvott í áhorfendasalnum.
Söngleikurinn Maybe Happy Ending halaði inn flestum verðlaunum á hátíðinni, alls sex talsins. Hann fjallar um tvö vélmenni sem byggja upp samband en verkið er upphaflega suður-kóreskt og hafði verið aðlagað að Broadway.
Þess má einnig geta að Nicole Scherzinger, sem þekkt er út stúlknabandinu The Pussycat Dolls, var verðlaunuð í flokki leikkvenna í aðalhlutverki í söngleik en það er í fyrsta sinn sem hún hlýtur Tony-verðlaun. Hlaut hún verðlaunin fyrir hlutverk sitt í söngleiknum Sunset Boulevard.
Cynthia Erivo, sem lék nýverið í söngvamyndinni Wicked, var kynnir kvöldsins en verðlaunaathöfnin var haldin í Radio City Music Hall í Manhattan á sunnudagskvöld. Heildarlista yfir verðlaunahafa má að venju finna á vefnum tonyawards.com.