Tony-verðlaunin, hin virtu bandarísku leiklistarverðlaun, voru afhent við hátíðlega athöfn í Radio City Music Hall í New York-borg í fyrradag, sunnudaginn 8. júní.
Eins og algengt er var viðburðurinn stjörnum prýddur, en á meðal gesta voru stjörnuhjónin George og Amal Clooney, söng- og leikkonan Nicole Scherzinger, sem hlaut verðlaun fyrir hlutverk sitt í söngleiknum Sunset Boulevard, leikkonurnar Sadie Sink, Sarah Snook og Katie Holmes og leikararnir Keanu Reeves, Bryan Cranston og Samuel L. Jackson, til að nefna nokkra.
Íslenska tónlistarkonan Laufey Lín Bing Jónsdóttir var einnig á meðal gesta og skein skært í grárri pilsadragt, blúndusokkabuxum, fjólubláum hælum og fullkomnaði útlitið með skemmtilegri kattartösku sem greip athygli margra.
Laufey er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að ganga niður rauða dregilinn enda hefur söngkonan mætt á alla stærstu viðburði í Hollywood síðustu ár.
Tónlistarkonan var meðal best klæddu gesta á Golden Globe-verðlaunahátíðinni í fyrra og vakti einnig mikla athygli á Met Gala-kvöldinu á síðasta ári í einstökum kjól frá indverska tískuhönnuðinum Prabal Gurung.