Íslenska kvikmyndin Ljósvíkingar var önnur af aðal sigurvegurum hinsegin kvikmyndahátíðarinnar Kashish Pride Film Festival á Indlandi, sem lauk um helgina. Bandaríski miðillinn Variety greinir frá.
Ljósvíkingar var valin besta leikna myndin á hátíðinni auk þess sem leikkonan Arna Magnea Danks var verðlaunuð fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Þá hlaut myndin einnig sérstök dómnefndarverðlaun fyrir handritið.
„Þetta eru fyrstu verðlaunin sem þessi mynd hlýtur, og myndin hefur ferðast á margar kvikmyndahátíðir,“ er haft eftir leikstjóra myndarinnar, Snævari Sölvasyni. „Ég elska Indland og þessi verðlaun hafa fært okkur sólarljós í þessa frekar köldu sveit.“
Þá segir Arna Magnea: „Það er ekki á hverjum degi sem trans kona eins og ég hlýtur verðlaun. Ég þakka leikstjóranum mínum og meðleikara og öllum þeim sem tóku þátt í að skapa þetta listaverk, sem er einstakt ekki aðeins á Íslandi heldur í heiminum öllum.“
Haft er eftir stjórnanda hátíðarinnar, Sridhar Rangayan, að hann sé sérstaklega ánægður að íslensk trans kona hafi unnið verðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki.