Bandaríska söngstjarnan Billie Eilish er sögð vera komin með kærasta. Sá heppni heitir Nat Wolff og er leikari sem margir ættu að kannast við, enda hefur hann farið með hlutverk í kvikmyndum á borð við Paper Towns, The Fault in our Stars, Home Again og Admission.
Orðrómur um nýfundna ást Eilish og Wolff hefur verið á sveimi um Hollywood-hæðir síðustu vikur og náði nýjum hæðum á laugardag þegar það sást til þeirra láta vel að hvort öðru á svölum blokkar í Feneyjum, en þar supu þau kampavín og kysstust heitt og innilega.
Eilish og Wolff eru sögð hafa kynnst á tökusetti tónlistarmyndbandsins Chihiro á síðasta ári.
Sjö ára aldursmunur er á parinu, Eilish er 23 ára og Wolff 30 ára.
Eilish virðist nokkuð hrifin af eldri mönnum.
Söngkonan átti í nokkurra mánaða sambandi við leikarann Matthew Tyler Vorce, sem er tíu árum eldri en hún. Voru þau saman þegar Eilish var 19 ára og Vorce 29 ára.