Málverk eftir Turner hefur komið í leitirnar eftir að hafa verið týnt í 150 ár. Um er að ræða fyrsta verkið sem hann sýndi á ferlinum, en það verður á uppboði 28. júní til 1. júlí hjá Sotheby’s í London. Málverkið er metið á allt að 300.000 pund, eða rúmar 50 milljónir íslenskra króna.
Á verkinu getur að líta heita laug í Bristol og ber það titilinn „The Rising Squall, Hot Wells, from St Vincent’s Rock, Bristol“. Turner mun hafa verið 17 ára gamall þegar hann málaði verkið, að því er segir í frétt myndlistarmiðilsins ARTnews, en listamaðurinn sýndi það í Royal Academy árið 1793. Prestur að nafni Robert Nixon keypti verkið, en hann var viðskiptavinur á rakarastofu föður Turners. Sonur prestsins erfði verkið en síðast er vitað til þess að það hafi verið sýnt í Tasmaníu í Ástralíu árið 1858. Í meira en heila öld var ekki vitað að Turner ætti verkið en merking hans var afhjúpuð eftir að verkið var hreinsað á liðnu ári.