Sögusagnir hafa verið á sveimi síðustu daga um að samband bandarísku söngkonunnar Katy Perry og enska leikarans Orlando Bloom standi á brauðfótum.
„Þetta er búið,” sagði ónefndur heimildamaður í samtali við tímaritið Page Six nýverið.
Perry, best þekkt fyrir poppsmellina I Kissed a Girl, Roar, California Gurls og Firework, er sem stendur á tónleikaferðalagi um heiminn og hyggst parið bíða með að tilkynna sambandsslitin þar til því lýkur, en síðustu tónleikar Perry verða haldnir þann 7. desember í Abu Dhabi.
Lélegar viðtökur á nýjustu plötu söngkonunnar eru sagðar hafa skapað spennu í sambandinu.
Perry og Bloom fögnuðu níu ára sambandsafmæli sínu í byrjun árs.
Parið, sem á eina dóttur, kynntist í Golden Globe-eftirpartíi árið 2016 og trúlofaði sig þremur árum síðar.