Milljarðamæringurinn og góðvinur Vilhjálms Bretaprins til fjölda ára, Sunjay Kapur, er látinn, 53 ára að aldri, eftir að hafa verið stunginn af býflugu.
Kapur, stjórnarformaður alþjóðlega bílahlutafyrirtækisins Sona Comstar, hneig niður í miðjum pólóleik á Englandi í gær, fimmtudaginn 12. júní, að því er fram kemur á vefsíðu breska fjölmiðilsins Mirror.
Kapur, sem var fyrrverandi eiginmaður Bollywood-stjörnunnar Karisma Kapoor, var stunginn í munninn af býflugu sem leiddi til bráðaofnæmislosts sem olli hjartastoppi.
Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir andlát sitt heiðraði indverskættaði viðskiptajöfurinn minningu fórnarlamba flugslyssins sem varð á fimmtudaginn þegar flugvél Air India hrapaði og 241 manns létust.
Vilhjálmur hefur ekki tjáð sig opinberlega um andlát Kapur að svo stöddu.