Justin Bieber virðist vera að hreinsa til í vinahópnum sínum eftir að hann birti skjáskot af tilfinningaþrungnum samskiptum við ónafngreindan vin á Instagram í vikunni.
„Að biðja einhvern sem er með áfallastreitu um að hætta að vera með áfallastreitu er einfaldlega grimmt,“ skrifaði söngvarinn í einum skilaboðunum.
Í samtalinu lýsir hann því að hann sé brotinn og að hann eigi við reiðivandamál að stríða. Hann segist ekki lengur sætta sig við vini sem kalla viðbrögð hans að „missa sig“ og segir vináttunni lokið.
„Ég þarf ekki á þér að halda sem vini. Ég á góða vini sem virða mörk,“ skrifaði hann áður en hann lokaði á viðkomandi.
Bieber heldur áfram að tjá sig um andlegt ástand sitt á Instagram-færslum í kjölfarið. Þar sagði hann m.a. að endalausar spurningar um hvort hann væri í lagi væru frekar íþyngjandi en hjálplegar.
Daginn eftir skrifaði hann að fólk væri sífellt að segja honum að „laga sig“ - en bætti við:
„Heldurðu að ef ég gæti lagað mig, að þá hefði ég ekki gert það fyrir löngu?“
Færslurnar birtust í kringum feðradaginn í Bandaríkjunum, en Bieber fagnaði honum í fyrsta sinn sem faðir, eftir að hann og eiginkona hans Hailey eignuðust soninn Jack Blues í ágúst 2024.