Katrín prinsessa af Wales tilkynnti í dag að hún hygðist ekki mæta á kappreiðarnar í Royal Ascot sem er einn frægasti íþróttaviðburður Englands. Konungsfjölskyldan mætir ár hvert á viðburðinn og tekur þátt með almenningi.
Katrín prinsessa af Wales hefur á síðastliðnum mánuðum einbeitt sér að því að ná fullri heilsu. Hún greindist með krabbamein á síðasta ári og tilkynnti að hún hefði losnað við það í september 2024. Katrín hefur tekið því rólega þegar kemur að störfum konungsfjölskyldunnar síðastliðna mánuði.
Katrín mun því ekki mæta á Royal Ascot með eiginmanni sínum Vilhjálmi prins, Karli III. konungi og Kamillu drottningu. Hún segist „vera að finna jafnvægi eftir baráttu sína við krabbamein.“
Katrín segist vonsvikin að geta ekki mætt á Royal Ascot enda var viðburðurinn uppáhaldsíþróttaviðburður Elísabetar II. drottningar.
Royal Ascot hefst með konunglegri skrúðgöngu þar sem Karl III. konungur og ýmsir meðlimir konungsfjölskyldunnar mæta í hestvögnum.
Á viðburðinum eru mjög strangar reglur um klæðaburð en karlmenn þurfa að vera með pípuhatt og í síðum jökkum. Konur þurfa að vera í kjól eða pilsi sem ná niður að hnjám eða lengra.