Bandaríski leikarinn Kelsey Grammer, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í vinsælu sjónvarpsþáttunum Frasier, á von á sínu áttunda barni ásamt eiginkonu sinni, Kayte Walsh. Þetta verður fjórða barn þeirra saman en Grammer á fjögur börn úr fyrri samböndum.
Samkvæmt heimildum Daily Mail er Grammer afar spenntur fyrir því að geta sinnt hlutverki sem faðir af heilum hug nú þegar hann hefur lokið við endurkomuna á hinum vinsæla karakter Dr. Frasier Crane í nýjustu þáttaröðinni af Fraiser.
Gift í 12 ár
Grammer og Walsh kynntust árið 2009 þegar hún starfaði sem flugfreyja og þau giftu sig árið 2011 í New York.
Þetta er fjórða hjónaband Grammer, þar á meðal var hann giftur Camille Grammer, fyrrverandi stjörnu úr Real Housewives of Beverly Hills og saman eiga þau tvö börn. Camille fékk 30 milljónir dollara eftir skilnað þeirra.
Grammer hefur oft iðrast þess í viðtölum í gegnum tíðina hversu mikinn tíma vinnan tók frá honum með fjölskyldunni. Nú virðist hann ætla að bæta úr því með því að njóta fjölskyldulífsins til fulls.