„Ég áttaði mig á að það er í rauninni bara markaðurinn sem reynir að flokka listina því þá hentar hún betur sem söluvara. Slíkt umhverfi hvetur mann til þess að halda sig innan eins listmiðils en með aldrinum áttar maður sig á því að listin er bara regnhlífarhugtak yfir skapandi hugsun og undir þeirri regnhlíf er hægt að gera margt og vera með ólíkar áherslur og hugmyndir,“ segir Elín Hansdóttir, myndlistarkona, leikmyndahönnuður og skartgripahönnuður. Eins og fjöldi starfsheita gefur til kynna er Elín ekki við eina fjölina felld, en þegar blaðamaður náði tali af henni var hún nýbúin að senda frá sér sína fyrstu skartgripalínu og í óða önn að undirbúa nýopnaða sýningu, Book Space, í Listasafni Ísafjarðar í Safnahúsinu auk þess sem stutt er síðan tilkynnt var um jólasýningu Þjóðleikhússins þar sem Elín sér um leikmynd.
„Verkið heitir „Book Space“ og er þátttökulistaverk sem hefur ferðast milli bókasafna víðs vegar um Evrópu frá árinu 2005, en verkið hefur verið á yfir 100 opinberum bókasöfnum. Í raun er þetta ákveðin uppskeruhátíð verksins sem ég byrjaði með í Þýskalandi fyrir tuttugu árum. Um er að ræða hvítar, auðar bækur sem eru í dag orðnar tvö þúsund talsins. Gestir bókasafna hafa fengið þær að láni, eins og venjan er á bókasöfnum, og fyllt þær af því sem þá lystir. Þarna má því finna samansafn af alls kyns hugmyndum, teikningum, uppskriftum, pólitískum hugleiðingum, textum og klippimyndum en það er ótrúlega gaman að skoða þetta.
Þetta er í fyrsta skipti sem allar bækurnar eru saman komnar og það er áhugavert að sjá hversu fjölbreytt efnistökin eru og hvernig þetta sýnir ákveðinn þverskurð af samfélaginu. Þetta er einhvers konar sigti á samtímann og maður sér líka hvað heimurinn hefur breyst mikið á þessum tuttugu árum. Þá er líka áhugavert að skoða fagurfræðina sem er stundum mjög „ljót“, í samanburði við þá estetík sem okkur er kennd að sé falleg, en það er þessi ljótleiki sem verður svo spennandi því þetta er algjörlega ófilteruð tjáning.“
Spurð um framtíð verksins segir Elín ákveðið stöðumat vera í gangi. „Upprunalega hugmyndin var sú að þetta ætti að vera ævilangt verkefni og að bækurnar yrðu alltaf fleiri og fleiri en ég hugsa núna að maður þurfi að laga sig að breyttri heimsmynd, enda þungt verk að vera að flytja á milli landa,“ segir Elín, en sýningin stendur til 18. október.
Elín gaf á dögunum út eigin skartgripalínu sem heitir Element, en hver gripur er handgerður og notaðar eru til dæmis perlur sem Elín hefur safnað á ferðum sínum um heiminn.
„Ég hef verið að gera skartgripi í tíu ár og þetta hefur verið eins konar laumuverkefni hjá mér samhliða myndlistinni, sem er mitt aðalsvið. Mér fannst tími til kominn að gera þetta almennilega og hætta að laumupokast. Ég hef alltaf haft áhuga á öllum tegundum listar, hvort sem um er að ræða myndlist, tónlist, sviðslistir, kvikmyndir eða hönnun. Ef ég skoða þá listamenn sem ég hef einna mest áhuga á er það fólk sem hefur ekki endilega bundið sig við eitthvert eitt svið. Nefna má sem dæmi Dieter Roth eða Eames-hjónin. Þau gerðu bara nákvæmlega það sem þeim sýndist hverju sinni en Roth hannaði líka skartgripi. Þá hefur mér fundist þessi skartgripagerð ákveðin æfing í fagurfræði. Þetta er ekki hugmyndalist heldur snýst þetta eingöngu um fagurfræði, jafnvægi í formum og áhugaverða efniskennd. Þetta er eins og að fara aftur í grunninn. Fagurfræði er mikilvæg, náttúran kennir okkur það, en besta dæmið er hvernig við löðumst öll að blómum án þess að hika. Í myndlistinni er það oft þannig að eitthvað vekur sjónrænt athygli okkar, trekkir mann að eins og býflugu, og í kjölfarið lærir maður eitthvað og dýpkar þannig skilninginn á hugmyndafræðinni. Fagurfræðin kveikir á skynfærunum og vekur forvitni, en forvitnin einmitt grundvallaratriði alls lærdóms.“
Talið berst að leikhúsinu en Elín hefur hannað leikmyndir fyrir verk eins og Saknaðarilm og hlaut t.d. Grímuverðlaunin árið 2021 fyrir Vertu úlfur. Í ár hannar hún leikmynd jólasýningar Þjóðleikhússins, sem er Óresteia eftir Benedict Andrews og byggir á forngrískum verkum. Er einhver rauður þráður í öllum þessum ólíku miðlum sem þú vinnur í?
„Ég er kannski ekki fær að dæma um það en ég held að það sé óhjákvæmilegt að það sé einhver rauður þráður og fagurfræði sem tengir þetta allt saman. Í myndlistinni hef ég lagt mikla áherslu á rýmisbundin verk, arkitektúr og spennu í rýminu – það hvernig við hreyfum okkur innan þess og hvernig heimurinn lítur út frá sjónarhorni ólíkra einstaklinga. Leikhúsið sameinar þennan áhuga minn á rými, hljóðheimi og texta og þetta er nátengt myndlistinni þótt útkomurnar séu vissulega ólíkar. Í leikhúsinu leitast ég við að skapa heima sem eru svolítið rýmislega ólíkir því sem við erum vön að sjá og upplifa í hversdagsleikanum. Þetta eru eins konar fantasíuheimar eða sálfræðileg innri rými og við könnumst kannski við þær tilfinningar sem rýmin vekja innra með okkur frekar en eitthvað sem við upplifum heima hjá okkur, á vinnustaðnum eða í hinu hefðbundna lífi.“
Innt eftir því hvort eitt sé skemmtilegra en annað þegar kemur að þessum ólíku miðlum sem hún vinnur í segir Elín svo ekki vera. „Þetta er allt skemmtilegt og kosturinn við að vera sjálfstætt starfandi er að maður getur valið sér verkefni og er ekki neyddur til þess að gera neitt sem mann langar ekki til að gera. Auðvitað koma upp erfiðir hlutir og þetta getur verið algjört bras en það er bara gaman.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.