Þeir streyma inn hjá Eggerti Pálssyni, einn af öðrum. Fyrst Einar Jóhannesson, þá Sigurður Halldórsson og loks Sverrir Guðjónsson. Saman kallast þeir Voces Thules og eru þekktastir fyrir heildarflutning sinn á latneska helgisöngnum Þorlákstíðum, verkefni sem hefur fylgt þeim í meira en þrjá áratugi. Þorlákstíðir eru fornar tíðabænir, sem fram að siðskiptum voru sungnar í Skálholti og víðar á messudögum Þorláks helga Þórhallssonar biskups sem uppi var frá 1133 til 1193. Textar eru að miklu leyti varðveittir og þeir eru á latínu. Nótnasetningu má einnig lesa.
Enn ein varðan á þessari vegferð er fram undan en á dögunum hlaut Voces Thules styrk úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals fyrrverandi seðlabankastjóra vegna fyrirhugaðrar útgáfu á uppritun Eggerts Pálssonar af tónmáli Þorlákstíða. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.
Í umsögn úthlutunarnefndar segir: „Útgáfan er afrakstur mikillar þekkingar- og nákvæmnisvinnu undanfarin 30 ár og er ætlunin með henni að gera aðgengilegan einstakan tónlistararf Íslendinga sem nýtast mun bæði til söngs, kennslu og fræðistarfa um allan heim. Dr. Ásdís Egilsdóttir er meðhöfundur þessa verks og ritar hún kafla um Þorlák, sögu hans og helgi, innanlands sem utan. Útgáfan er mikilvægt innlegg í miðlun og varðveislu menningar þjóðarinnar. Hún mun nýtast til kennslu, rannsókna og söngs, bæði innan lands og utan.“
Varla ofmælt en Þorláks helga er minnst víða um heim, ekki síst í Frakklandi en hann lærði á sinni tíð í París. Voces Thules rifja upp söguna af því þegar séra Jakob Rolland, prestur kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, kom í klaustur í svissnesku Ölpunum til að óska eftir gistingu.
„Hvaðan kemur þú?“ spurði munkurinn eftir að hann hafði lokið upp hnausþykkri hurðinni.
„Frá Íslandi,“ svaraði séra Jakob.
„Íslandi!“ hljóðaði munkurinn. „Frá landi heilags Þorláks!“
Björk Guðmundsdóttir hvað?
„Þú sérð að þessi áhugi á Þorláki er ekki bara sérviska hjá okkur í Voces Thules,“ segir Sverrir.
Sverrir segir að fljótlega hafi komið í ljós að erfitt yrði að að syngja beint af ljósrituðum blöðum skinnhandritsins, sem varð til þess að Eggert tók að sér það yfirgripsmikla verkefni að vinna hagnýta uppskrift Þorlákstíða, sem hefur átt sinn þróunarferil gegnum árin.
Eggert hefur nú lokið verkinu og er franskur miðaldasérfræðingur í tónlist og gregorssöng, Philippe Lenoble, að lesa yfir verkið í heild sinni. „Ég er honum mjög þakklátur fyrir að taka verkið að sér en kannski fæ ég handritið bara útkrotað til baka,“ segir Eggert sposkur á svip.
Félagar hans telja litlar líkur á því enda hafi Lenoble þegar kveðið upp þann úrskurð að verkið sé „afar áhugavert“.
Eggert leitaði fanga víða og kveðst smám saman hafa áttað sig á því út á hvað uppritunin gekk en margt hefur að vonum breyst við nótnaritun frá því um 1400, þegar Þorlákstíðir komu út á bók. „Ég hef lært mjög mikið á þessu – og er enn að læra,“ segir hann.
– Þetta er væntanlega mikil þolinmæðisvinna?
„Þú getur rétt ímyndað þér.“
Líklegast er að verkið komi út snemma á næsta ári en að sögn Eggerts má þó vel vera að því verði flýtt. Textinn í bókinni verður á þremur tungumálum, íslensku, latínu og ensku.
Voces Thules komust í samband við Lenoble gegnum annan Frakka, Jacques Debs, sem gerði heimildarmynd um gregorssöng sem hann tengdi við Ísland og fóru tökur að hluta til fram hérlendis. Myndin var frumsýnd í fyrra og syngja Voces Thules þar nokkur stef. Til stendur að sýna hana í Ríkissjónvarpinu.
Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvað tíðasöngur er? Sverrir skilgreinir hann með eftirfarandi hætti: „Tíðasöngur í gregoríönskum stíl er nokkurs konar kyrrðarsöngur, þar sem flæði tónlistarinnar og textanna fleytir þátttakandanum áfram líkt og hann sigli áreynslulaust á öldufaldi, en með skýra stefnu. Flutningur þessarar tónlistar er innilegt tilbeiðslu- og hugleiðsluform, sem kristin kirkja hefur iðkað frá ómunatíð.“
Eggert segir að að tíðasöngur hafi líka verið ákveðin klukka. „Tíðir voru sungnar á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn þar sem Drottinsorð og oftast Davíðssálmar voru sungnir og heyrðist þá í klukkum í nærliggjandi klaustrum og kirkjum. T.d. morguntíð, kvöldtíð, miðmálstíð o.s.frv. Eftir siðaskiptin vissi sennilega engin hvað klukkan sló af því að þær voru flestar þagnaðar en fólk notaði klukkuslögin til að átta sig á hvað deginum liði.“
Allir hafa þeir félagar helgað líf sitt tónlist, hvort sem það er söngur eða hljóðfæraleikur, og höfðu allir verið í sönghópum áður en Voces Thules kom til sögunnar. Eggert var í sönghóp í Vínarborg, þar sem hann lagði stund á nám í slagverksleik, og Sigurður og Sverrir í Bretlandi, þar sem þeir voru við nám í söng og sellóleik. „Mest tengdist það kirkjutónlist og mótettuverkefnum og þetta voru misstórir hópar,“ segir Sigurður.
Sigurður, Sverrir og Eggert komu fyrst fram sem nafnlaus hópur á Púlsinum sáluga við Vitastíg árið 1991 og síðan á hátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð árið eftir. Með þeim á þessum tíma voru Guðlaugur Viktorsson og Ragnar Davíðsson. Seinna bættust í hópinn Einar Jóhannesson, Pétur Húni Björnsson, Eiríkur Hreinn Helgason og Eyjólfur Eyjólfsson.
Spurðir hvaðan hugmyndin að nafninu hafi komið svara þeir því til að Sybil Urbancic kórstjóri hafi verið með kór sem hét Voces upp á latínu og að þeim hafi hugnast það nafn. Svo vildu þeir kenna sig við Ísland sem í ýmsum heimildum frá miðöldum ber nafnið Thule. Fyrir áhugafólk um málfræði þá upplýsir Eggert að Thules sé fimmta beyging grískra tökuorða í latínu.
Til að byrja með voru aðallega á efnisskránni franskir og enskir madrígalar. Síðan fóru lög frá miðöldum að bætast við. „Það var svo á tónleikum í Landakotskirkju 1993 að við tókum fyrst eitt eða tvö númer úr Þorlákstíðum. Faðir minn, Halldór Vilhelmsson, var þar meðal gesta og sagði strax eftir tónleikana: Þið verðið að taka þetta allt, strákar,“ segir Sigurður en Þorlákstíðir taka um þrjár klukkustundir í flutningi. Þær eru sungnar frá kvöldtíðum kvöldinu fyrir Þorláksmessu og enda í messu að kvöldi þann dag á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn.
Þar með var tónninn gefinn. Handritið að Þorlákstíðum var þegar hér er komið sögu enn í Kaupmannahöfn en hópurinn fór að kynna sér svarthvítt ljósrit úr doktorsritgerð Róberts Abrahams Ottóssonar sem aðgengilegt var í Skálholti. „Það var ekki einfalt verk enda á köflum erfitt að sjá hvað voru nótur og hvað flugnaskítur eða blekslettur í upphaflega handritinu,“ segir Eggert en bæði Kristján Valur Ingólfsson, rektor í Skálholti, og séra Jakob Rolland veittu þeim ómetanlega aðstoð við þessa eftirgrennslan. „Þeir voru sérfræðingar okkar í litúrgíunni,“ segir Sigurður.
Sverrir bendir á, að ekki hafi verið hlaupið að því að finna allt efnið en kaþólska kirkjan hafi reynst betri en enginn í því sambandi. „Einu sinni teygði séra Jakob sig bara upp í hillu eftir einhverju sem okkur vanhagaði um.“
Gegnum tíðina hefur Voces Thules leitað fanga víða og átt gott samstarf við sérfræðinga og fræðimenn.
Þetta varð til þess að Eggert réðst í það yfirgripsmikla verk að vinna hagnýta uppskrift Þorlákstíða.
„Þarna varð til fyrsta kynslóðin af nótnaritun Eggerts og við byrjuðum að æfa upp úr þeim drögum,“ segir Sigurður en það var um þetta leyti sem Einar bættist í hópinn. „Við æfðum allan veturinn eftir þessum drögum og þá var önnur kynslóðin komin.“
– Hvað erum við að tala um margar kynslóðir?
Nú ranghvolfa þeir allir augunum. Og skella svo upp úr. „Það er ný og ný kynslóð í hvert skipti sem við komum saman. Þess vegna er mikilvægt að henda öllum gömlu blöðunum strax,“ segir Sigurður.
Til að byrja með vann Eggert með pappír en eftir að taug í hægri handlegg hans klemmdist fyrir um tveimur áratugum þurfti hann að finna stafræna lausn, þar sem hann átti orðið vont með að valda blýanti eða penna. Eggert gekkst undir aðgerð en hún skilaði litlum árangri. Hann býr hins vegar að tilkomumiklu öri á handleggnum til minningar um aðgerðina. Þess má geta að allar götur síðan hefur Eggert þurft að halda öðruvísi á kjuðunum þegar hann leikur á slagverkið.
Undirbúningur að heildarflutningi Þorlákstíða hófst í lok árs 1993, á 800 ára ártíð Þorláks. Tónlistarhandrit Þorlákstíða, AM 241 a II fol. frá ca. 1400, var flutt heim frá Kaupmannahöfn 1996, og er nú vel varðveitt í Eddu, húsi handritanna.
Heilmikil vinna var lögð í að finna rétta flæðið í söngnum og treysti hópurinn mikið á Einar í því sambandi enda er hann kaþólskur og hefur dvalist mikið í klaustrum gegnum tíðina. „Það tók okkur svona fjögur ár að finna flæðið og rétta stílinn,“ segir hann.
Sverrir segir ekki bara mikla samhæfingu, heldur ekki síður mikinn samhug fólginn í þessum söng sem flytjendur þurfi að þróa með sér. „Við þurfum að verða eins og fiskitorfa,“ bætir Eggert við og Sigurður segir mikinn einhug þurfa, enda allt einraddað.
Á Listahátíð í Reykjavík 1998, á hvítasunnu, fluttu Voces Thules Þorlákstíðir í heild sinni á rúmum sólarhring að fornum klaustursið, í tilefni af 800 ára dýrlingshátíð Þorláks biskups. Í kjölfar flutningsins hófst hljóðritun Þorlákstíða í áföngum, sem var gefin út á listbók árið 2006, hannaðri af Brynju Baldursdóttur, sem innihélt þrjá geisladiska og einn textadisk, ásamt greinum á nokkrum tungumálum, en þar var líka að finna alla hljóðritunina fyrir DVD í 5:1 surround. Engar nótur fylgdu þeirri útgáfu.
Sú hljóðritun átti sér nokkurn aðdraganda. Tilraunir hófust fyrst með aðkomu Ríkisútvarpsins en þáverandi tónlistarstjóri þess, Guðmundur Emilsson, sýndi málinu áhuga og keypt voru ný tæki til að tryggja sem mest gæði.
Vesper 1 var tekið upp í Skálholtskirkju en hún reyndist ekki nægilega vel fallin til verksins, hljóðið var ekki eins gott og að var stefnt. Önnur tilraun var gerð í Landakotskirkju en þá truflaði umferð bíla og flugvéla upptökurnar enda þótt menn kæmu saman á kvöldin og syngju jafnvel inn í nóttina. Hljóð frá strætisvögnum féll illa að Þorlákstíðum og Sverrir upplýsir að síminn hafi verið tekinn upp og bjallað í stjórnstöð Strætó. „Við óskuðum eftir því að vagnstjórar yrðu vinsamlega beðnir um að aka hægt upp Túngötuna, mikilvæg hljóðritun væri í gangi í kirkjunni,“ segir Sverrir brosandi.
– Hvernig var því tekið?
„Bara vel.“
Einar rifjar upp sambærilega sögu. „Einu sinni var vinur minn og kollegi, breski klarínettuleikarinn Michael Collins, að leika fyrir konungsfjölskylduna í Windsor-kastala og flugumferð yfir Heathrow truflaði upplifunina. Þá tók Elísabet drottningarmóðir bara upp símann og lét stöðva þessa umferð um stund.“
Þar með var björninn þó ekki unninn. Tæknin einfaldlega dugði ekki. „Stillt var upp tveimur eða þremur míkrófónapörum mislangt frá okkur sem þýddi að allt heyrðist þrisvar sinnum og öll ess urðu löng og skrýtin. Þetta var ekki að virka,“ segir Sigurður.
Hallgrímskirkja var líka prófuð en allt fór á sömu lund.
Það var ekki fyrr en Sveinn Kjartansson hljóðmeistari kom sér upp því sem fjórmenningarnir kalla „galdratæki“ að skriður komst á hljóðritun Þorlákstíða. Um var að ræða mun fullkomnari hljóðnema og auk þess svokallaða „delay“-tækni sem leysti vandamálið með tilliti til fjarlægðar hljóðnemanna frá söngvurunum, auk þess sem öll umhverfishljóð voru vinsuð úr. Tekið var upp í Hallgrímskirkju og voru nokkrir staðir prófaðir uns þéttasti hljómurinn fannst, undir orgelinu.
Upptökur hófust aldamótaárið 2000 og stóðu í hálft annað ár. Eftir það lágu menn lengi yfir efninu, til að velja upptökurnar og huga að eftirvinnslunni. Listbókin kom svo ekki út fyrr en 2006, eins og áður segir.
„Við áttuðum okkur á því að miðjutökurnar voru yfirleitt bestar en ekki þær fyrstu og alls ekki þær síðustu. Þegar við ætluðum að bæta við tökum varð það alltaf verra,“ segir Sverrir og Sigurður bætir við: „Við sóttum alla jafna í miðjuna.“
Nú vendir Einar kvæði sínu í kross og segir: „En þurfum við ekki að segja söguna af því þegar séra Þorlákur vitjaði okkar?“
– Hvað ertu að segja?
Já, ein upptaka var öðrum eftirminnilegri, fyrsta prufutakan í Skálholti. Hljóðrita átti í stutta stund, „Hátíð gengur í garð“, en fara síðan í kaffi og hafði Voces Thules komið sér fyrir við tröppurnar upp að altarinu í kirkjunni. „Við renndum í það og allt var eðlilegt til að byrja með,“ rifjar Eggert upp. „Síðan verðum við varir við að einhver gengur inn gólfið. Við sáum ekkert en skynjuðum einhverja orku. Við héldum samt áfram að syngja en horfðum hver á annan; skynjuðum þetta greinilega allir. Hvað eigum við að gera? hugsuðum við. Hætta?“
Sverrir tekur upp þráðinn: „Orkan nálgaðist og nálgaðist og þegar hún kom upp að altarispallinum urðum við sem stóðum í miðjunni hreinlega að færa okkur frá til að hleypa henni í gegn.“
Þeir eru ekki í vafa um að þarna hafi andi Þorláks biskups verið á ferð. Og hvað ætli hafi hreyft við honum? „Tja,“ segir Eggert. „Þetta var í fyrsta sinn sem þessi tiltekni söngur úr Þorlákstíðum var sunginn í Skálholti í margar aldir, ábyggilega frá 1550.“
Sigurður grípur orðið: „Ætli Jón biskup Arason hafi ekki sungið þetta síðastur áður en hann var hálshöggvinn.“
Hinir kinka kolli. „Þetta var svona „hvað í ósköpunum-augnablik“,“ botnar Eggert söguna.
– Hvernig túlkuðuð þið þetta?
„Á þann veg að Þorlákur væri að leggja blessun sína yfir verkefnið,“ svarar Sverrir.
„Já, við litum alla vega þannig á að þetta væri staðfesting á því að við værum á réttri leið,“ bætir Sigurður við.
Þeir greindu séra Jakobi Rolland frá atvikinu og hann lagði sömu túlkun í þessa óvenjulegu upplifun.
Textinn í Þorlákstíðum er merkileg sagnfræðileg heimild um Þorlák helga og Ísland á tólftu öld. Höfundur hans er mögulega Arngrímur Brandsson, þó það sé ekki vitað fyrir víst, sem Voces Thules segja sjálfan eiga sér merkilega sögu. Hann var ábóti í Þingeyraklaustri og uppreisnarmaður sem settur var af vegna þess sem var kallað „viðurstyggileg verk“. Við erum að tala um miðaldir, þannig að eitthvað hefur líklega þurft til. Arngrímur var sendur til Noregs á fund biskupsins í Niðarósi en skilaði sér aldrei þangað. Þess í stað lærði hann orgelsmíð í Noregi og talið er líklegt að hann hafi haft með sér hljóðfæri, sem líklega hefur kallast organistrum á þeirri tíð, þegar hann sneri aftur heim til Íslands. Þá virðast syndir hans hafa verið gleymdar og Arngrímur tók aftur til starfa fyrir kirkjuna.
Handritið að Þorlákstíðum er kópía og segja Voces Thules engan vita fyrir víst hvenær það var upphaflega skrifað.
Allir hafa þeir áhuga á miðöldum en Einar bendir á, að hann snúi að einu öðru fremur. „Þú áttar þig á því að við erum ekki að elta nornir, heldur dýrlinga!“
Jú, miðaldir voru auðvitað mikið galdratímabil með nornabrennum og öðru tilheyrandi. Ísland var þar engin undantekning og mest fór líklega fyrir því fyrir vestan. „Það er oft vitnað til íslenskra galdramanna erlendis,“ segja þeir.
„Við tökum þá kannski fyrir næst,“ segir Eggert og uppsker hlátur við borðið.
Margs er að minnast frá þessum 30 árum rúmum. Einu sinni var Voces Thules stefnt til Bessastaða til að taka við viðurkenningu úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands. Komu þar fulltrúar ólíkra trúfélaga saman, kaþólskir menn, lúterskir og zen-búddistar en bæði Eggert og Sverrir aðhyllast síðastnefndu trúna.
Voces Thules hafa sungið Þorlákstíðir víða um lönd. Þeir rifja upp eftirminnilega tónleika í Håkonshallen í Bergen 2008, þegar þeim tókst að „stinga Noregskonung af“.
– Ha?
„Við vorum komnir niður í kjallara, þar sem búningsherbergin voru, og heyrðum kallað: „Voces Thules! Voces Thules!“ en sáum aldrei neinn. Viðkomandi fann okkur ekki og gafst upp og fór. Seinna var okkur sagt að þetta hefði verið sjálfur Haraldur Noregskonungur.“
Talandi um kóngafólk þá rifjar Einar upp þegar Voces Thules söng fyrir Margréti Þórhildi Danadrottningu hér heima. „Ég veitti því athygli að hún drúpti höfði og hlustaði með öðru eyranu. Síðan hef ég sjálfur alltaf hlustað á tónleika með þessum hætti,“ segir hann brosandi.
Ógleymanleg er líka tónleikaferð um Japan, þar sem sungið var á 15 stöðum, alltaf fyrir fullu húsi. Og það voru alvöru hús en þeir segja hvern einasta smábæ í Japan eiga sitt eigið tónlistarhús. Sungið var á japönsku og muna þeir enn textann, svo sem tóndæmið sem ég fæ ber vitni um.
Og þeir eru hvergi nærri hættir að ferðast. Einar segir að komið hafi til tals að Voces Thules komi fram á hátíð heilags Magnúsar á Orkneyjum á næsta ári og Sigurður segir tilvalið að setja stefnuna á hátíð heilags Hallvarðar í Osló í framhaldinu.
Annars munu Voces Thules ábyggilega hafa hægar um sig hér eftir en hingað til enda líta þeir á útgáfuna á uppritun Eggerts sem ákveðinn endapunkt verkefnisins. „Það sér fyrir endann á þessu,“ segir Eggert, „og hver veit nema að við getum núna farið að snúa okkur að einhverju öðru. Það er sannarlega tími til kominn.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.