Í D-sal Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi stendur nú yfir sýning Sadie Cook og Jo Pawlowska í sýningaröð sem kennd er við salinn.
Í þeirri röð er upprennandi myndlistarmönnum hér á landi boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í safni og vísar titillinn, D51, til þess að sýningin er sú 51. í röðinni.
Sýning þeirra Cook og Pawlowska er innsetning með þúsundum ljósmynda og kvikra mynda og myndefnið sviðsettir draumar, bjöguð vídeó, skjáskot af samtölum á síðkvöldum, pixlaðar sjálfur og læknaskýrslur, eins og segir á vef safnsins.
„Hvert verk endurspeglar leit listamannanna að ummerkjum lifaðrar reynslu á eigin líkama. Sýningin byggist á möguleikanum að geta verið til fyrir utan áskapaða tvíhyggju,“ stendur þar og að tvíhyggjan sé „alltumlykjandi“ og sundrist og sameinist á ný.
Samstarf Cook og Pawlowska mun hafa sprottið af því að hvort um sig var með snoðkoll.
„Það þróaðist áfram í samtölum um hár, sjálfið, sjálfsmynd, uppbrot línulegrar framvindu og internetið. Listrænt samkrull hófst fyrir alvöru einn sólskinsdag í maí 2024 þegar Jo tók fyrsta skammtinn af testósteróni á meðan Sadie dýfði fótunum í slím og smellti af mynd á bleika plastmyndavél,“ segir á vefnum.
Í tilkynningu segir að Jo Pawlowska sé bæði listamaður og sýningarstjóri sem í þverfaglegri listsköpun sinni skapi náin, vangaveltukennd en oft á tíðum leikræn verk þar sem stafræni heimurinn, stafrænar leifar, endurhugsaðir líkamar og hinn efnislegi veruleiki mætist og fléttist saman.
Frá árinu 2016 hafi Jo verið hluti af listadúettinum Brokat Films, ásamt málaranum og þrívíddarhönnuðinum Sasa Lubińska. Hán býr og starfar á Íslandi og hlaut í fyrra listamannalaun frá Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands.
Sadie Cook er listamaður sem vinnur á mörkum ljósmyndunar og innsetninga. Hán hefur sýnt verk sín bæði innanlands og á alþjóðavettvangi, og ljósmyndir háns eru hluti af safneign bókasafna MoMA, Tate og Met.
Sadie útskrifaðist frá Yale, hlaut Fulbright-styrk og hefur starfað sem gestakennari við Yale, Harvard og NYU. Sadie býr og starfar í Reykjavík, kennir við Myndlistaskólann í Reykjavík og Ljósmyndaskólann, rekur sýningarrýmið Gallery Kannski, og situr í stjórn Nýlistasafnsins.“
„Sadie Cook er frá Bandaríkjunum og Jo Pawlowska frá Póllandi. Þau hafa bæði búið á Íslandi í nokkur ár,“ segir Björk Hrafnsdóttir sýningarstjóri í samtali við blaðamann en hún er með meistaragráðu í sýningagerð, hefur stýrt nokkrum sýningum og þá m.a. í D-sal Hafnarhúss þar sem sérstök áhersla er lögð á yngri listamenn.
Björk segir Cook og Pawlowska bæði listmenntuð, Cook hafi numið ljósmyndum við Yale og Pawlowska sé með bakgrunn í vídeólistum.
„Þótt öll verkin á þessari sýningu séu sprottin frá þeim báðum og unnin í sameiningu sér maður einkenni frá þeim í sólóverkefnum þeirra. Þar hefur Jo verið að vinna í tvíeyki sem heitir Brokart Films og er svona internet-fagurfræði, vídeólist og svoleiðis, og Sadie fókusað meira á ljósmyndun. Þarna eru þau að sameina krafta sína og búin að búa til innsetningu sem er blönduð, fullt af ljósmyndum og kvikum myndum, vídeóverkum, sem eru sýnd ýmist á skjáum, í símum eða i-pöddum. Svo er ýmiss textíll líka, þau prenta á alls konar miðla og ekki bara hefðbundinn pappír heldur textíl, plast og filmur,“ segir Björk.
Af öllu þessu má sjá að listafólkið gerir tilraunir með alls konar efni og segir Björk að fagurfræðin og hugmyndin á bak við listina sé mjög persónuleg fyrir listamennina.
„Þau fókusa mikið á tvíhyggju, „binary“, eru bæði að fjalla um kynjatvíhyggju en líka tvíhyggjuna sem er úti um allt eins og gott og illt, ljós og myrkur og allt þetta sem við setjum á þennan skala,“ segir Björk.
Nú veit ég að ég bið þig ekki um lítið en geturðu lýst því sem fyrir augu ber á sýningunni?
„Já,“ svarar Björk kímin. „Þetta eru tvö þúsund ljósmyndir sem taka á móti þér á sýningunni, allt frá því að vera sentimetri á breidd yfir í nokkra metra hver mynd. Ég get ekki lýst hverri og einni mynd,“ segir hún og blaðamaður hefur að sjálfsögðu fullan skilning á því.
„Það eru stafrænir miðlar líka en mikið af myndum á pappír og það mismunandi pappír. Við höfðum ekki langan tíma til að setja þessa sýningu upp þannig að við vorum til miðnættis flesta daga að líma upp myndir í salinn. Það var búið að ákveða hvar hver einasta mynd ætti að vera og þetta var pínu eins og að púsla risastórt púsluspil, það þurfti að finna myndina, hvar hún ætti að vera og líma hana þar upp.“
Björk segir að með uppsetningunni hafi listafólkið viljað ná fram ákveðinni tilfinningu.
„Þau eru að vinna með tvo skala, tvo ása, sem eru horn í horn inni í salnum og eiga að tákna tvenns konar tvíhyggju. Þau eru að vinna með skalann frá því að vera á hreyfingu yfir í kyrrð og frá því opinbera eða „public“ yfir í „private“ eða persónulegt. Þannig að myndirnar, formið á þeim og uppsetningin á að gefa þér ákveðna tilfinningu fyrir þessu,“ segir hún.
Af þessu öllu má sjá að mikil vinna býr að baki sýningunni og Björk staðfestir þær vangaveltur blaðamanns.
„Þau eru búin að vera að vinna að þessu verki í rúmt ár og þetta er í raun þeirra fyrsta samstarf,“ segir hún um listafólkið.
„Þau hafa verið að móta þessa sýningu og þessar hugmyndir undanfarið ár. Hún er að mestu byggð á persónulegri reynslu listamannanna en hefur líka mótast út frá hugmyndum listamanna, rithöfunda og heimspekinga sem hafa verið að rannsaka málefni tengd tvíhyggju og sjálfinu,“ segir Björk að endingu.
Sýningin var opnuð 29. maí og lýkur 30. júlí.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.