Á Stöðvarfirði er kaffibrennslan Kaffi Kvörn starfrækt en fyrirtækið selur einnig kaffi undir heitinu „Kaffi Kvörn“. Allt er það brennt á Stöðvarfirði og er Kvörn eina kaffibrennslan á Austurlandi. Til stendur að opna lítið kaffihús utan um kaffibrennsluna á næstu tveimur árum.
Fyrirtækið var stofnað fyrir tíu árum en flutti fyrir tveimur og hálfu ári til Stöðvarfjarðar og er starfrækt í Sköpunarmiðstöðinni þar.
Maðurinn á bak við fyrirtækið er Lukasz Stencel sem hefur brennt kaffi í fjölda ára. Lukasz segir starfsemina enn í dag vera pínulitla í stóra samhenginu en vélin sem hann notar til að brenna kaffibaunir er um 15 kílóa og segist hann geta brennt um 300 kíló af kaffibaunum á dag.
Lukasz segist alltaf hafa um fjórar gerðir af kaffi til sölu í einu, sem allar koma frá einum uppskerustað eða „single origin“. Hann skiptir um kaffigerðir á þriggja mánaða fresti og það er aldrei eins. Hann segist alltaf reyna að huga að því hvar uppskeran er að hverju sinni en er þó alltaf með kaffi frá Brasilíu til sölu.
„Núna er ég reyndar með sex týpur af kaffi. Núna er til dæmis uppskera í Kenía og ég ætla að reyna að panta í næsta mánuði kaffi þaðan,“ segir Lukasz.
Lukasz segir það hafa gengið ágætlega að vekja athygli á fyrirtækinu. Hann hefur þó ekki auglýst neitt, heldur fréttir fólk yfirleitt af fyrirtækinu í gegnum annað fólk. Það stendur þó til að auglýsa meira á næstunni.
Hægt er að vera í kaffiáskrift þar sem nýtt kaffi frá nýjum stað kemur í hverjum mánuði. Í síðasta mánuði var til að mynda kaffi frá Papúa í Nýju-Gíneu. Kaffið fæst þó einnig í Melabúðinni, Kokku og Kaffi Laugalæk og til stendur að selja kaffið í Kjörbúðum landsins.
Hann segist stefna að því að selja kaffið í fleiri verslunum víðar um landið, jafnvel í stórverslunum á borð við Krónuna.
Hann segir fólk opnara fyrir hágæða kaffi í Reykjavík. „Fyrir fimmtán árum þá var umræðan um hágæðakaffi í Reykjavík þannig að fólk spurði sig; af hverju á ég að borga meiri pening fyrir þetta kaffi heldur en eitthvað annað. Umræðan þar er aðeins að breytast en það tekur aðeins lengri tíma hérna á Austurlandi,“ segir hann og hlær. Hann segist flytja mest af kaffinu til Reykjavíkur.
Til stendur að byggja lítið kaffihús utan um kaffibrennsluna á Stöðvarfirði. Verkefnið er allt unnið í gegnum styrki, meðal annars frá Byggðarstofnun og Sterkum Stöðvarfirði. Nú bíður Lukasz eftir teikningum frá arkitekt. Kaffihúsið verður tengt við tilraunaeldhús sem og upptökustúdíó sem er í Sköpunarmiðstöðinni og heitir Stúdíó Síló. Þar verður meðal annars hægt að taka upp tónlist á vínylplötur inni á kaffihúsinu.
„Ég er með litla plötubúð líka og við erum að skera vínylplötur hérna og kaffihúsið verður mjög tengt þessu stúdíói,“ segir hann.
Aðspurður hvort hann vilji opna fleiri kaffihús víðar um haldið segist Lukasz sjálfur vilja vera mest á Austurlandi að brenna kaffi. Hann segist geta hjálpað fólki að opna kaffihús og kenna því á kaffið sjálft. „Ég vil bara brenna kaffi og selja vínylplötur.“
Lukasz stofnaði kaffibrennsluna í Reykjavík árið 2015 en hann brenndi þó kaffi löngu fyrir þann tíma. Hann byrjaði að brenna kaffi sér til yndisauka og kynntist Sonju Grant í gegnum það áhugamál. Sonja er í dag meðeigandi Kaffibrugghússins og hvatti hann til þess að stofna fyrirtæki í kringum áhugamálið.
„Svo keypti ég pínulítinn brennsluofn og þetta átti að vera bara hobby en núna er þetta komið allt of langt,“ segir hann og hlær.
Hann flutti starfsemi sína á Stöðvarfjörð fyrir tveimur og hálfu ári, þegar hann flutti í bæinn.
Lukazs flutti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni frá Póllandi árið 2001. Fjölskyldan vann öll í fiski en flutti til Reykjavíkur þegar frystihúsinu var lokað.
Nokkrum áratugum síðar keypti hann, ásamt hópi fólks, frystihúsið þegar til stóð að rífa það og stofnuðu þau Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði, sem nýverið vann Eyrarrósina. Öll kaffibrennslan fer fram í miðstöðinni en Lukasz segist taka þar fagnandi á móti fólki sem vill smakka og kaupa kaffi á ferð sinni um landið í sumar.