Írska skáldkonan Sally Rooney er stórstjarna í bókmenntaheiminum, sérstaklega meðal yngri lesenda. Aðdáendur bíða í ofvæni eftir nýjum bókum úr smiðju hennar og ausa hana lofi.
Gagnrýnendur hafa einnig tekið verkum hennar vel. Rooney er þó ekki allra. Frá upphafi ferils hennar hefur fólk skipst í fylkingar, það ýmist dáir bækurnar eða þolir þær ekki, og þeir sem þola þær ekki liggja ekki á skoðunum sínum. Fjórða skáldsaga hennar, Millileikur (Intermezzo, 2024), er engin undantekning.
Enn og aftur skrifar Rooney bók um náin sambönd. Að þessu sinni velur hún að hafa bræðrasamband fyrir miðju bókarinnar en samskipti bræðranna við ástkonur sínar eru ekki síður fyrirferðarmikil.
Eldri bróðirinn Pétur hefur náð langt í heimi lögfræðinnar en gengur miður vel að ráða fram úr ástamálum sínum. Hann hittir reglulega unga konu, Naomi, sem lifir nokkuð viltu lífi miðað við jafnaldra hans en hann heldur líka sambandi við nána vinkonu sína og fyrrverandi unnustu, Sylvíu. Samböndin hafa sína kosti og galla og hann veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.
Ívan er tíu árum yngri, rétt skriðinn yfir tvítugt. Hann þótti mjög efnilegur skákmaður en hefur ekki staðist væntingar sjálfs sín og annarra. Þegar kona að nafni Margrét kemur inn í líf hans finnur hann hamingju sem hann hefur ekki áður kynnst. Margrét, sem er töluvert eldri en Ívan, hefur þó sínar efasemdir enda á hún erfiðan skilnað að baki.
Þeir bræður hafa nýlega misst föður sinn sem virðist hafa verið límið í fjölskyldunni. Það gerir að verkum að það er styttra inn að kviku hjá þeim báðum. Samband bræðranna hefur verið stirt í gegnum tíðina og nú er stutt í suðupunkt.
Höfundurinn kafar í hugarheim bræðranna og lesendur fá góða mynd af þeim. Kvenpersónurnar eru hins vegar misskýrar, Margrét fær langa kafla þar sem farið er á dýptina í hennar sögu en hins vegar hefðu ástkonur Péturs mátt fá mun meira rými, sérstaklega hin unga Naomi enda er margt óvenjulegt í hennar fari sem vekur áhuga lesandans.
Í fyrri bókum sínum, Okkar á milli (Conversations with Friends, 2017), Eins og fólk er flest (Normal People, 2018) og Fagra veröld, hvar ert þú? (Beautiful World, Where Are You, 2021), hefur Rooney skoðað valdadýnamíkina sem felst í samböndum og getur sem dæmi stafað af aldursmun, fjárhag eða félagslegri stöðu.
Þetta þema heldur áfram í Millileik. Hugmyndir um aldursmun í ástarsamböndum er sérstaklega til umfjöllunar og höfundurinn skoðar innbyggða fordóma og áhrif þeirra. Rooney veltir upp stórum spurningum í þessu samhengi: Hvað gerist þegar hamingjan samræmist ekki viðteknum gildum samfélagsins? Á maður að leita hana uppi þrátt fyrir að það gæti stuðað fólkið í kringum mann?
Roony er snilldarstílisti og það er alltaf unun að lesa textana hennar. Hún gerir meiri tilraunir í þessari bók en þeim fyrri hvað varðar stílinn og hún beitir ýmsum aðferðum til að flakka áreynslulaust milli sjónarhorna. Áhrifin frá landa hennar James Joyce eru greinileg og hún hefur sjálf skrifað í tengslum við þessa útgáfu að hún standi í þakkarskuld við skáldsögu hans Ulysses. Áhrifin frá hugarflugsköflum Joyce eru áberandi í Millileik.
Þetta gerir það að verkum að lesandinn kemst alveg inn í höfuðið á persónunum og hver tilfinning öðlast aukinn trúverðugleika. Þetta á sérstaklega við um þá kafla þar sem eldri bróðirinn Pétur hefur orðið og örvæntingu hans og hugsanaóreiðu eru gerð skil. Höfundurinn vísar einnig í önnur þekkt skáldverk, sem dæmi má nefna verk eftir William Shakespeare, John Keats og Thomas Hardy. Hún fléttar beinar tilvitnanir inn í textann og eru þær skilmerkilega skráðar í tilvitnanaskrá.
Þýðing Bjarna Jónssonar er vel heppnuð. Rooney er nákvæm í orðavali og má sérstaklega nefna fyrrnefda kafla sem fanga hugarflug persónanna og einkennast af hálfkláruðum setningum og hiki. Þar má gera ráð fyrir að þýðandinn þurfi að vanda til verka til að koma sömu áhrifum til skila á íslensku en það tekst mætavel.
Rooney er vel lesin, heimspekilega þenkjandi og alveg ofboðslega forvitin um mannlega hegðun. Greining hennar á samskiptum fólks í nánum samböndum og tilfinningaflækjum sem því fylgir hefur alltaf verið hennar styrkleiki. Stundum verður textinn heldur fílósófískur. Þá vaknar sú tilfinning að gáfumannatalið sé frá höfundinum komið en eignað persónum bókarinnar. Það væri ákjósanlegt að Rooney treysti lesendum til að túlka þá sögu sem hún segir í stað þess að útskýra um of hvaða hugmyndir liggi að baki.
Bókin er ögn endurtekningasöm en það skýrist af því að persónur hennar eru fastar í eigin hugsunum. Hún hélt mér samt allan tímann og er það sérstaklega að þakka gæðum textans og góðri persónusköpun.
Í Millileik nær Rooney að fanga einhvern sammannlegan breyskleika með tólum bókmenntanna en á hátt sem virkar einkar nútímalegur. Það er kannski þess vegna sem hún nær til margra lesenda af sinni eigin kynslóð, fólks sem telur að tilfinningar eigi ekki að vera neitt til að skammast sín fyrir og kann að meta þegar dýpstu langanir og þrár fólks eru afhjúpaðar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.