„Planið var alltaf að hafa einhvers konar heiðurstónleika fyrir Helgu Ingólfsdóttur, stofnanda hátíðarinnar, og þá lá beinast við að finna einhvern sem spilar á hennar hljóðfæri, sembalinn, en Jean er fremstur í sinni röð í heiminum í dag,“ segir Benedikt Kristjánsson, listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri Sumartónleika í Skálholti, inntur eftir komu franska semballeikarans Jean Rondeau á hátíðina en hann mun flytja franska efnisskrá á einleikstónleikum til heiðurs Helgu laugardaginn 5. júlí klukkan 16.
„Það er ótrúlega mikill heiður að fá hann en hann kom hingað til lands fyrir tíu árum með frönsku ensemble,“ segir hann og bætir því við að dagana á undan verði einmitt einleikstónleikaþema á hátíðinni.
„Þar munu nokkrir af okkar færustu tónlistarmönnum á Íslandi spreyta sig. Má þar nefna Björgu Brjánsdóttur flautuleikara, Pétur Björnsson fiðluleikara og Geirþrúði Önnu Guðmundsdóttur sellóleikara.“
Sumartónleikarnir í Skálholti eru elsta barokktónlistarhátíðin á Norðurlöndum og hafa þeir verið haldnir á hverju sumri síðan árið 1975. Hátíðin fagnar því 50 ára stórafmæli í ár og af því tilefni stendur hún aðeins lengur en vanalega eða alls í 16 daga, frá 28. júní til 13. júlí.
„Mig langaði að hafa hátíðina lengri, en í ár bjóðum við upp á 20 viðburði. Einnig langaði mig að fá inn á hátíðina listamenn sem höfðu verið hliðhollir hátíðinni í gegnum árin. Þar má sérstaklega nefna kórinn Hljómeyki og kammerhópinn Nordic Affect sem hafa verið fastagestir síðustu áratugi en eins og þegar maður býður í fimmtugsafmælisveislu þá býður maður þeim vinum sem maður hefur verið í mestu sambandi við,“ útskýrir Benedikt sem sjálfur hefur stýrt hátíðinni í þrjú ár.
Á opnunartónleikum hátíðarinnar verður frumflutt nýtt verk eftir staðartónskáldið Sigurð Sævarsson, sem ber heitið Deus, Deus meus. Verkið verður flutt af Kordó kvartettinum, Cantoque ensemble og Benedikt sjálfum en stjórnandi verður Steinar Logi Helgason.
„Sigurður hefur haslað sér völl sem kirkjutónlistartónskáld og hefur samið mikið af frábærri kirkjutónlist sem hefur verið flutt bæði hér á landi og erlendis. Mér fannst því mjög við hæfi í tilefni af þessu afmæli að fá tónskáld sem hefði líka eitthvað með kirkjuna að gera því kirkjan er svo mikilvægur hluti af þessari hátíð. Það er því ákveðinn sameinandi hlutur í því að frumflytja nýtt kirkjutónlistarverk.“
Þá verður í fyrsta sinn boðið upp á sviðsetta óperu á hátíðinni en óperan Dido and Aeneas eftir Henry Purcell verður flutt á síðustu helgi hennar.
„Flytjendur eru Barokkbandið Brák og einvala lið söngvara undir stjórn Halldórs Bjarka Arnarssonar. Það krefst mikils undirbúnings að setja upp svona óperu en það góða við þessa tilteknu óperu er að hún er einungis um klukkustundarlöng,“ segir Benedikt og nefnir í kjölfarið að flestir tónleikarnir á hátíðinni séu í þeirri tímalengd.
„Þessi ópera passar því mjög vel inn í dagskrána.“
Segir Benedikt að sem fyrr sé mikið lagt upp úr því að setja saman skemmtilega dagskrá fyrir börnin en í ár verður boðið upp á alls konar viðburði fyrir yngstu kynslóðina, sem eiginkona Benedikts, Angela Árnadóttir, hefur umsjón með.
„Foreldrar hafa verið mjög duglegir að mæta með börnin á þessa viðburði en í fyrra frumsýndum við til dæmis söngleikhúsið um hann Gutta í Guttavísum og þar er Angela í aðalhlutverki, sem handritshöfundur, sögumaður og söngkona. Ég útsetti nokkur lög úr Vísnabókinni fyrir strengjakvartett og þetta var flutt í Þorláksbúð þar sem fullt var út að dyrum. Þetta var ótrúlega gaman svo við vildum endurtaka leikinn í ár,“ segir hann og tekur fram að Angela sé ekki einungis að halda utan um barnadagskrá hátíðarinnar heldur verði hún sjálf með myndlistarsýningu.
Aðspurður í framhaldinu segir hann mikilvægt að geta boðið upp á fjölbreytni á svona hátíð og því sé kjörið að blanda saman listgreinum.
„Það búa ekki margir í nágrenni Skálholts svo fullt af fólki gerir sér ferð á hátíðina. Þess vegna finnst mér gaman að upplifunin sé ekki einungis sú að koma og sjá tónleika og fara svo aftur heim heldur að Sumartónleikarnir séu svolítið búnir að taka yfir allan staðinn í smátíma. Þú getur til dæmis fengið þér að borða á veitingahúsinu og á meðan notið myndlistarsýningarinnar. Svo eru börnin á einhverjum barnaviðburðum á meðan þú ert kannski bara að skoða náttúruna. Allir eru að vinna saman, Hótel Skálholt, Skálholtskirkja og fleiri og því verður þetta meiri upplifun fyrir gestina.“
Frá upphafi hátíðarinnar hafa allir viðburðir Sumartónleikanna verið gjaldfrjálsir og hátíðin því einungis verið rekin á styrkjum frá hinu opinbera og fyrirtækjum sem og frjálsum framlögum tónleikagesta. Spurður út í þær áskoranir sem fylgja því að halda úti hátíð sem þessari, sem hefur fyrir löngu skipað sér sess í íslensku tónlistarlífi, svarar Benedikt því til að ávallt sé erfitt að leita styrkja.
„Það var fullt af fólki sem sagði við mig þegar ég tók við þessari hátíð að það þýddi ekkert að hafa hana gjaldfrjálsa áfram því það gæti ekki gengið til lengdar. Mér er hins vegar ofboðslega annt um að við höldum því fyrirkomulagi til streitu. Það er alltaf mjög erfitt að finna fjármagn og það leikur enginn vafi á því að það verður erfiðara, einfaldlega vegna þess að ég held að potturinn sé ekkert að verða stærri en fleiri vilja aftur á móti hræra í honum.
Það er ekkert nema gott um það að segja að margir á Íslandi vilji setja nýjar hátíðir á laggirnar eða séu með ný spennandi verkefni sem þeir séu að vinna að hér og þar en auðvitað er það alltaf áskorun að finna fjármagn, sérstaklega ef maður getur ekki stólað á neina innkomu – þá er það mjög erfitt,“ segir hann til útskýringar.
„Hins vegar erum við að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir þau frjálsu framlög sem hafa komið á hverju einasta sumri því þau hjálpa mjög mikið. Við getum þó ekki borgað listamönnum himinhá laun og það hafa allir skilning á því en við getum samt sem áður boðið upp á gistingu í Skálholtsbúðum. Þar geta allir verið saman og mætt með fjölskylduna, börn og maka með sér og verið í fríu fæði sem við sjáum um líka. Það getur því orðið ákveðið „sumarfrí“ úr þessari dvöl fyrir þá listamenn sem koma og það kunna allir rosalega vel að meta það. Þannig virkar svolítið þetta hátíðarumhverfi í kringum Skálholt.“
Sjálfur ólst Benedikt upp á þessum slóðum og segist því muna vel eftir hátíðinni sem barn. „Þetta er umhverfi sem ég sá þegar ég var lítill og mér fannst heillandi. Mig langaði því að halda því áfram en ekki byrja á einhverju „kapítalísku umhverfi“ sem kostar svona og svona mikið inn á. Mér finnst það bara ekki nógu sjarmerandi,“ segir hann og bætir því við að lokum að þau hjónin séu full eftirvæntingar fyrir afmælishátíðinni.
„Ég tel mig vera búinn að skipuleggja hluti alveg nógu vel svo ég verði ekki í of miklu stressi þegar kemur að hátíðinni en svo kemur alltaf eitthvað upp á. Stress þarf heldur ekki endilega að vera neikvætt. Ég er alla vega hvergi nærri hættur, eins lengi og þetta er gaman þá held ég áfram.“
Allar nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má finna hér.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.