Breska söngkonan Jessie J opinberaði að hafa gengist undir skurðaðgerð vegna brjóstakrabbameins sem hún berst við. Í gær setti hún inn myndir og myndskeið frá sjúkrahúsdvölinni á samfélagsmiðilinn Instagram, sem sýndu m.a. umbúðir um bringuna á henni og stuðning hennar nánustu.
Við hlið hennar á einni myndinni er Chanan Safir Colman sem kyssir hana þegar hann kveður hana fyrir skurðaðgerðinni og á einu myndskeiðinu sýnir hún gleðina yfir að fá son þeirra Sky í heimsókn, sem er aðeins tveggja ára.
Myndirnar og myndskeiðin eru hjartnæm en í einu þeirra segir hún við barnsföður sinn Colman eftir aðgerðina: „Ég ímyndaði mér að Sky segði: Ég elska þig mamma og ég sagði við hann: Ég elska þig, ég elska þig líka.“
Jessie sagði frá meininu fyrr í þessum mánuði og hefur nú tilkynnt aðdáendum sínum að hún sé heima að hvíla sig eftir aðgerðina á meðan hún bíður eftir niðurstöðum.
Hún hefur verið opinská um veikindin á samfélagsmiðlum og dugleg að segja frá líðan sinni sem hefur verið sveiflukennd og einkennist m.a. af kvíðaköstum.