Leikarinn Eric Dane, best þekktur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Grey's Anatomy, hefur komið sér í ástarþríhyrning eftir að hann sást opinberlega með kvikmyndagerðarkonunni Janell Shirtcliff á frumsýningu nýrrar þáttaraðar sinnar, Countdown, þann 18. júní síðastliðinn.
Samkvæmt heimildarmanni var Dane, sem er 52 ára, enn í sambandi með 27 ára fyrirsætunni og leikkonunni Priyu Jain þegar hann birtist á rauða dreglinum með Shirtcliff, sem er 41 árs. Jain er sögð vera í miklu áfalli eftir atburðinn.
„Priya er niðurbrotin,“ segir heimildarmaðurinn, sem bætir við að hún hefði ekki vitað af þessu. Jain hafði rætt við Dane aðeins fáeinum dögum áður en hann sást halda í hönd Shirtcliff á frumsýningunni og verið mjög náinn henni í eftirpartíinu.
„Það er enginn möguleiki á að þau taki saman aftur. Hjartasár gróa, en opinber niðurlæging situr eftir. Hún vill bara halda áfram með líf sitt og feril,“ segir heimildarmaðurinn.
Jain og Dane höfðu verið saman í ár en þau kynntust í gegnum sameiginlegan vin og eyddi Jain miklum tíma í að styðja Dane eftir að hann greindist með ALS-sjúkdóminn.
Dane er enn formlega giftur leikkonunni Rebeccu Gayheart sem hann á tvær dætur með, en þau höfðu áður ákveðið að hætta við skilnað sem þau sóttu um árið 2018. Dane greindi nýlega frá því að Gayheart væri einn hans stærsti stuðningsaðili eftir ALS-greininguna.
Þetta kemur fram í US magazine.