Suge Knight, var lykilmaður í uppgangi rappsenunnar á tíunda áratugnum og hefur nú komið fram með nýjar upplýsingar um morðið á rapparanum Tupac Shakur þar sem hann var skotinn til bana árið 1996, aðeins 25 ára. Knight sakar móður Shakur um að hafa aðstoðað við að enda líf sonar síns.
Þessa örlagaríku nótt, þann 7. september 1996, keyrði Knight ásamt Shakur á svörtum BMW í gegnum Las Vegas þegar hann varð skyndilega fyrir skoti. Shakur lést af sárum sínum sex dögum síðar.
Í viðtali við tímaritið People, sem fram fór í fangelsi í Kaliforníu þar sem Knight afplánar 28 ára dóm fyrir manndráp, segir hann að Shakur hafi beðið móður sína, Afeni Shakur, um að hjálpa sér að deyja eftir að hann slasaðist eftir árásina og var að berjast fyrir lífi sínu. Knight fullyrðir jafnframt að hún hafi reynt að uppfylla ósk sonar síns með því að gefa honum töflur sem áttu að enda líf hans.
Í þessu viðtali segir Knight einnig að rapparinn Sean „Diddy“ Combs, eða P. Diddy hafi átt þátt í því að skipuleggja árásina á Shakur og sjálfan sig. Combs hefur alltaf neitað öllum slíkum ásökunum og lögreglan í Las Vegas hefur staðfest að Combs hafi aldrei verið grunaður í málinu. Combs gengur nú undir réttarhöld þar sem hann er ákærður fyrir kynferðisbrot, mansal, mannrán og að byrla og þvinga konur til kynlífs.
Duane „Keefe D“ Davis, sem ákærður hefur verið fyrir morðið á Shakur, hefur einnig borið vitni um meint hlutverk Combs í morðinu í yfirheyrslum hjá lögreglu árin 2008 og 2009. Davis hefur hins vegar ávallt neitað sök og réttarhöld yfir honum eru fyrirhuguð í febrúar 2026.
Knight lýsir því að dauði Shakur hafi haft varanleg áhrif á líf hans. „Hluti af mér dó þegar hann dó. Hann var uppáhaldspersónan mín í heiminum,“ sagði Knight í viðtalinu.