Áströlsk yfirvöld hafa afturkallað vegabréfsáritun bandaríska rapparans Kanye West vegna lags þar sem West mærir nasistaleiðtogann Adolf Hitler.
West, sem hefur löglega breytt nafni sínu í Ye, gaf út lagið „Heil Hitler“ 8. maí þegar 80 ár voru liðin frá því nasistar biðu ósigur í seinni heimsstyrjöldinni.
West hefur oft heimsótt Ástralíu þar sem eiginkona hans, Bianca Censori, er áströlsk og á fjölskyldu í landinu.
Tony Burke, innanríkisráðherra Ástralíu, greindi frá ákvörðun yfirvalda í dag.
„Hann hefur látið mörg meiðandi ummæli falla en mínir embættismenn skoðuðu málið aftur þegar hann gaf út lagið „Heil Hitler“ og hann hefur ekki lengur gilda vegabréfsáritun í Ástralíu.“
Burke sagði að afturkölluð vegabréfsáritun rapparans hafi ekki tengst tónleikahaldi.
„Þetta var á lægra stigi og embættismenn fóru samt yfir lögin og sögðu: „Ef þú ætlar að gefa út lag og kynna þessa tegund af nasisma – það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda í Ástralíu,“ sagði Burke við ríkisútvarpið ABC.
Þegar hann var spurður hvort það væri sjálfbært að banna svo vinsælum einstaklingi að sækja landið heim, svaraði ráðherrann: „Ég held að það sem er ekki sjálfbært sé að flytja inn hatur.“
En hann bætti við að innflytjendayfirvöld endurmeti hverja umsókn um vegabréfsáritun.