„Þetta byrjaði allt saman þegar við Díana vinkona mín vorum að keyra á Siglufjörð með sonum okkar. Við vorum á rafmagnsbíl og höfðum áhyggjur af því alla leiðina að hann yrði rafmagnslaus. Við vorum farnar að ímynda okkur alls konar, að við yrðum úti og hvaðeina. Og þá sprakk að sjálfsögðu á bílnum,“ segir Sjöfn Asare bókmenntafræðingur í samtali um smásagnasafnið Innlyksa sem hún gaf nýverið út ásamt Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur og Rebekku Sif Stefánsdóttur.
„En svo var þetta auðvitað ekki eins dramatískt og við höfðum séð fyrir okkur, við vorum í alfaraleið og fengum strax hjálp,“ bætir hún við og hlær björtum hlátri.
„En upp frá þessu atviki fórum við að velta fyrir okkur þessari tilfinningu, að vera innlyksa, og hvað það er hægt að vera fastur á margan hátt í alls konar aðstæðum. Hvort sem það er í leiðinlegu partíi eða ömurlegu sambandi eða bara ofan í holu, í bókstaflegri merkingu. Og við ákváðum að skrifa um það smásagnasafn.“
Þær Sjöfn, Díana og Rebekka Sif hafa verið vinkonur lengi og meðal annars unnið saman að bókmenntaumfjöllun fyrir vef Lestrarklefans, sem Rebekka Sif og Díana halda úti. Spurð hvort vináttan og skrifin haldist vel í hendur svarar Sjöfn að bragði:
„Alveg hundrað prósent. Það er svo dýrmætt að fá einhvern sem maður treystir vel til þess að lesa yfir texta fyrir sig, hvort sem það er ritstjóri eða vinur. Ég held reyndar að við höfum borið allt sem við höfum skrifað á síðustu árum undir hver aðra, án þess að pæla eitthvað sérstaklega í því. Við sækjum stöðugt innblástur hver til annarrar og hvatningu.“
Blaðamanni leikur þá forvitni á að vita hvort ekki hafi verið einhverjar áskoranir við vinnslu bókarinnar líka.
„Tja, jú, það hljóta nú að hafa verið einhverjar,“ svarar Sjöfn eftir nokkra umhugsun.
„En þetta gekk satt að segja alveg ofsalega vel, enda semur okkur frábærlega og erum traustar vinkonur. Ég býst við að það sé nokkuð sérstakt. Við fengum Steinar Braga til að lesa yfir fyrir okkur og hann sagði að fyrir sér væri það hryllilegasta við þetta smásagnasafn að ímynda sér að skrifa bók með tveimur vinum sínum. En okkur fannst það alveg æðislegt,“ segir hún kímin.
„Ég held að stærsta áskorunin hafi kannski verið útgáfan sjálf, fremur en skrifin. Vegna þess að við erum allar rithöfundar, en við getum ekki sagt að við séum útgefendur. Það væri þá helst Rebekka sem hefur komið mest að útgáfu í gegnum árin. Fyrir okkur Díönu var þetta stór lærdómskúrva.“
Sjöfn deilir því með blaðamanni að þetta sé í fyrsta skipti sem hún skrifi smásögu.
„Við vorum komnar með þessa frábæru hugmynd að gera smásagnasafn og búnar að velja þemað og ræða það í þaula. Það var ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig á því að ég vissi ekki einu sinni hvort ég gæti skrifað smásögu. En ég sló að sjálfsögðu til, enda allt of seint að hætta við.
Fyrsta smásagan sem ég skrifaði heitir „Hautkatze“ og segir frá manni sem breytist í kött. Hún er alveg verulega skrýtin og ég var pínu óviss með hana, en sendi hana samt á stelpurnar sem fannst hún góð svo hún fékk að vera með. En ég skrifaði líka nokkrar sögur sem komust ekki með í bókina. Reglan sem við settum okkur var að einungis þær sögur sem við værum allar ánægðar með færu í bókina og út í heiminn. Það og að persónan í sögunni þurfti að vera innlyksa. Hvað fælist síðan nákvæmlega í því var teygjanlegt.“
Margar sögurnar í bókinni eru nokkuð hryllilegar og kannski ekki við öðru að búast þegar umfjöllunarefnið er innilokunarkennd og einangrun. Þær innihalda sömuleiðis allt frá hversdagslegu raunsæi yfir í framtíðarskáldskap.
„Við nálgumst efniviðinn allar út frá ólíkum sjónarhornum en þrátt fyrir það virðumst við alltaf enda á svipuðum stað,“ útskýrir Sjöfn.
„Þegar ég fæ lausan tauminn finnst mér gaman að leita í hrylling og náframtíðarskáldskap og búa til söguheim sem er frábrugðinn okkar veruleika en um leið kunnuglegur. Mín nálgun er sú að manneskjur hagi sér yfirleitt á fyrirsjáanlegan hátt, sama hverjar aðstæðurnar eru. Það sé eitthvað frumstætt og sammannlegt sem kemur í ljós undir þrýstingi,“ segir hún svo og leggur áherslu á að allar sögurnar í safninu takist á við sálfræði manneskjunnar á einn eða annan hátt.
„Við erum að skoða hvað manneskjan gerir þegar öll sund eru lokuð, hvernig hún bregst við innilokandi aðstæðum.“
Blaðamaður hefur orð á því að mögulega geti lesandinn þá komist að ýmsu um sjálfan sig við lestur bókarinnar og samsinnir Sjöfn því heilshugar.
„Ég vona samt að sögurnar segi ekki of mikið um mig sem manneskju,“ bætir hún svo við hlæjandi. „Ég hef nefnilega lent í því að vera spurð af hneyksluðum lesanda hvernig ég geti eiginlega skrifað svona ógeð, ég sem eigi nú börn. En ég er alveg góð mamma þótt ég sé með svakalegt ímyndunarafl!“
Nýverið sendi Sjöfn einnig frá sér skáldsöguna Bú sem gefin er út af Storytel og fæst við sambærileg viðfangsefni.
„Bú segir frá tveimur vinum sem fara saman á afskekktan sveitabæ eða bú. Þar eiga dularfullir atburðir sér síðan stað og þau verða á vissan hátt innlyksa í sveitinni. Þetta er greinilega orðið ákveðið þema hjá mér núna.“
Spurð að endingu hvort búast megi við fleiri samskrifsverkum frá vinkonuhópnum svarar Sjöfn að svo megi vel vera.
„Þetta safn er ákveðið tilraunaverkefni en það væri gaman að gefa út eitthvað meira. Við ætlum samt að sjá hvað setur. Allar erum við mjög hrifnar af íslenskri bókmenntasenu og viljum taka virkan þátt í henni, en fyrir okkur er meginatriðið hreinlega að góð bók rati til sinna lesenda – sama með hvaða hætti það nú er.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.