Michael Madsen, sem er einna þekktastur fyrir leik sinn í stórmyndum á borð við Reservoir Dogs, Kill Bill og Donnie Brasco, fannst látinn á heimili sínu í Malibú í Kaliforníuríki fyrr í dag. Hann var 67 ára.
Þessu greinir fréttastofa The Guardian frá.
Madsen var úrskurðaður látinn klukkan 8.25 í morgun að staðartíma. Umboðsmaður hans, Ron Smith, staðfestir að Madsen hafi látist vegna hjartastopps.
Fógetaembættið staðfestir að ekki leiki grunur á um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Madsen hóf feril sinn í Chicago með leikhópnum Steppenwolf og steig inn á silfurtjaldið með hlutverki sínu í vísindaskáldsögulegu kvikmyndinni WarGames.
„Undanfarin tvö ár hefur Michael Madsen verið að vinna að ótrúlegum verkefnum í óháða kvikmyndabransanum, til dæmis með myndum á borð við Resurrection Road, Concessions og Cookbook for Southern housewifes,“ segir í tilkynningu frá umboðsmönnum hans.
„Hann hlakkaði virkilega mikið til þessa komandi æviskeiðs og verður sárt saknað sem eins eftirtektarverðasta leikara Hollywood.“