„Ég er stödd hér á Drangsnesi af því að í hvert skipti sem maðurinn minn, sem er enskur, kemur með mér til Íslands, þá langar mig að sýna honum nýjan hluta af landinu mínu. Núna erum við að keyra um Vestfirðina,“ segir Sara Sigurðardóttir myndlistarkona sem var alsæl á ferðalagi þegar náðist í hana, en hún hefur verið búsett í London undanfarinn áratug og starfar þar sem myndlistarkona.
Fyrsta einkasýning hennar á Íslandi stendur nú yfir í sal Íslenska grafíkfélagsins í Hafnarhúsinu í Reykjavík. Sýningin ber yfirskriftina Nafli heimsins, og þar sýnir hún ný málverk sem hún vann á síðasta ári og þessu ári. Verkin eru nýstárleg og litrík, með sterka vísun í íslenska náttúru og handverkshefð.
„Ég fékk listamannalaun fyrir árið 2024 frá Íslandi og þá fannst mér liggja beinast við að klára þetta verkefni með því að sýna heima, en ég hef sýnt mest á samsýningum úti í London, en þó hef ég verið með eina einkasýningu þar.“
Sara segist á sínum tíma hafa ætlað að fara í læknisfræði eftir að hún lauk prófi í Versló á líffræðibraut, en listin hafi togað sterkt í sig.
„Ég hafði sótt námskeið hjá Myndlistarskólanum í Reykjavík og mig langaði alltaf að starfa við eitthvað tengt listum, en fjölskyldan mín hvatti mig til að mennta mig í einhverju praktískara. Eftir Versló fór ég því milliveginn, fór í diplómanám í teikningu í Myndlistarskóla Reykjavíkur, sem er hugsað fyrir þau sem vilja starfa við að myndlýsa bækur eða þau sem ætla sér að verða grafískir hönnuðir.
Að því námi loknu stóð hugur minn til frekara myndlistarnáms og ég tók smá u-beygju og flutti út með tveimur íslenskum vinkonum mínum. Þar var ég í tvö ár í skiptinámi og kláraði BA-próf í Fine Arts frá The Art Institute of Cumbria, sem var þá í samstarfi við Myndlistarskóla Reykjavíkur. Ég fann mig algerlega í þessu námi og að því loknu fór ég í meistaranám í The Royal College of Art í London og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn af málarabraut árið 2019. Á útskriftarsýningunni minni kynntist ég manninum mínum, Thomasi O. Brigden, en hann er kvikmyndagerðarmaður,“ segir Sara og bætir við að margt hafi gerst í lífi sínu síðan þá.
„Ég hef meðal annars eignast tvö börn, en fæðingin og móðurhlutverkið er einmitt meginþema nýju verkanna sem ég sýni núna í Grafíksalnum. Naflastrengir, ýmist í bláum eða grænum tónum, vefja sig um verkin sem innihalda bæði íslensk prjónamynstur og fjallalandslag. Ég ætlaði alls ekki að gera verk um meðgöngu eða það að verða móðir, mér fannst það svo væmið, en eftir fæðingu frumburðarins dóttur minnar þá var allt svo dramatískt og stórt og þetta tók yfir lífið. Mér fannst ég ekki geta komist hjá því að vinna úr því öllu í gegnum myndlistina. Ég var alltaf að reyna að mála á milli þess sem ég gaf dóttur minni brjóst og annaðist hana, ég tók hana með í stúdíóið til að vinna í myndlistinni og þetta var allt í einum hrærigraut.
Þá fór þessi upplifun að fléttast inn í verkin mín, enda er þetta svo stór kafli í lífi kvenna sem verða mæður að mér fannst full ástæða til að varpa ljósi á þessa merkilegu lífsreynslu. Við mæður göngum með einhverjum hætti einar í gegnum þetta, mér fannst til dæmis svolítið erfitt að verða mamma, búandi í útlandi með enga úr minni fjölskyldu nálægt mér og maðurinn minn var mikið að vinna. Ég fór að leita uppi skrif eftir aðrar konur um þessa reynslu, hvernig þær hefðu upplifað þessa umbreytingu sem það er að vera barnshafandi, fæða barn í heiminn og verða móðir. Ég las mér sérstaklega til um listakonur sem þurfa að kljást við það að lifa á listinni, sinna kannski annarri launaðri vinnu og sinna heimili og barnauppeldi. Þetta eru margir þræðir í hendi og getur verið flókið púsluspil.“
Sara segir að sér hafi fundist gaman að leika sér með fyrirbærið naflastreng í nýju verkunum sem hún sýnir nú hér heima.
„Naflastrengurinn er táknrænn fyrir alla seríuna og þetta spilar allt saman, af því að hann bæði gefur líf, sér barninu fyrir næringu alla meðgönguna, en hann getur líka tekið líf, ef hann vefst til dæmis um háls barns í fæðingu.“
Formið á naflastrengnum í þessum verkum Söru er ekki ólíkt snúru í handverki og munstur margra myndanna minna mjög á gamlan útsaum, sem er engin tilviljun.
„Fyrsta sem ég gerði þegar ég fékk staðfestingu á að ég fengi listamannalaun var að kaupa Sjónabókina, þar sem má finna íslensk munstur frá 17., 18. og 19. öld sem notuð voru í hannyrðum eins og útsaumi og vefnaði. Þau munstur sem eru í myndunum mínum eru flest úr þessari merkilegu bók. Þar fyrir utan á ég góðar fyrirmyndir í ömmu minni, Kristrúnu Stefánsdóttur, sem var mjög flink handverkskona, og líka frænku minni, Sigrúnu Kristínu Þorsteinsdóttur, þekkt sem Kidda, en hún var mjög öflug á þessu sviði.“
Þessi nýju verk Söru eru unnin með olíu á sérhannaðar viðarplötur sem hún teiknar upp og lætur skera út, síðan er þeim raðað saman í misþykk lög svo að úr verða lágmyndir. Myndirnar minna á kirkjulist fyrri tíma, en íslenskar timburkirkjur og alþýðulist hafa ævinlega staðið hjarta Söru nær.
„Öll þessi verk búa yfir þrívídd, en ég málaði áður á striga, en samt voru ákveðin lög í fyrri verkum mínum. Besta vinkona mín í London, sem er skúlptúristi, spurði mig hvers vegna ég prófaði ekki að gera þessi lög ennþá sýnilegri og sjá hvað kæmi út. Ég tók hana á orðinu og ákvað að prófa. Þar fyrir utan er þessi tenging mín við íslenskar viðarkirkjur og altaristöflur sem eru málaðar á við.
Ég hafði áður prófað mig áfram með þrívíddarprent, að búa til hluti sem ég hafði með málverkinu, en mig langaði að innleiða meiri þrívídd í verkin mín. Þetta eru fyrstu verkin sem ég vinn með þessum hætti, en ég fékk styrk úti í Bretlandi þegar covid skall á, til að prófa mig áfram með ný efni og aðferðir, og þá lét ég vaða. Ég er mjög sátt við útkomuna.“
Sýning Söru, Nafli heimsins, í sal Íslenska grafíkfélagsins stendur til og með 6. júlí.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.