Bandaríska söngkonan og raunveruleikaþáttastjarnan Aubrey O'Day tjáði sig um niðurstöðu dómara í réttarhöldunum yfir rapparanum Sean „Diddy“ Combs, en hann var sýknaður af ákæru um mansal í sögulegu dómsmáli sem teygir sig yfir fjölda ára og snertir mörg fórnarlömb. O'Day var áður á samningi hjá plötufyrirtæki Combs, Bad Boy Records.
„Ég er enn að ná utan um þetta allt saman. Menningarlegt vægi ákvörðunarinnar er ómælanlegt,“ skrifaði O'Day í Instagram-sögu sinni í gær.
„Það veldur hjarta mínu sorg að verða vitni að hve mörg líf hafa orðið fyrir áhrifum vegna upplifunar af Sean Combs.“
Söngkonan og fyrrverandi kærasta Combs, Cassie Ventura, deildi einnig viðbrögðum sínum í gær. Hún var eitt aðalvitna í dómsmálinu og þótti vitnisburður hennar mjög áhrifamikill og lýsingar óhugnanlegar.
Ventura varð fyrir miklum vonbrigðum með lokaræðu verjanda Combs, Marc Agnilfilo, sem líkti sambandi þeirra við „stórkostlega ástarsögu“. Combs var ákærður fyrir gróft ofbeldi gagnvart Ventura, líkt og áður hefur komið fram.