Francois Bayrou forsætisráðherra Frakklands segist vonast til þess að fransk-alsírski rithöfundurinn Boualem Sansal verði náðaður fljótlega en hann hlaut fimm ára fangelsisdóm í Alsír í lok mars. Var honum gert að sök að hafa grafið undan réttmæti landfræðilegs yfirráðasvæðis Alsírs í viðtali við franska fjölmiðla. AFP greinir frá.
Sansal er töluverður Íslandsvinur og var t.a.m. gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík vorið 2023. Þá hafði Sjón einnig umsjón með viðburði tileinkuðum Sansal á Bókmenntahátíð nú í vor þar sem undirskriftum með kröfu um að hann yrði látinn laus var meðal annars safnað.
Franska utanríkisráðuneytið hvatti einnig stjórnvöld í Alsír til að sýna rithöfundinum vægð með tilliti til heilsufarslegs ástands Sansal sem er með krabbamein í blöðruhálskirtli. „Það er von okkar að Sansal verði látinn laus og hljóti læknisaðstoð,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins.