„Við bara harðneitum að leggjast á bakið og drepast þó við höfum misst leikhúsið okkar. Við vinnum enn að því að finna nýju atvinnuleikhúsi frábæran stað í Hafnafirði, en á meðan erum við í samstarfi við Borgarleikhúsið, Tjarnarbíó og Bæjarbíó með stóru sýningarnar okkar,“ segir Björk Jakobsdóttir, annar eigandi Gaflaraleikhússins.
„Það er gaman að segja frá því að Gaflaraleikhúsið er komið með aðsetur á 3. hæð Nýsköpunarsetursins í Hafnarfirði. Þar verðum við með Gafló leiklistarskólann ásamt því að vera með æfingarými fyrir Gaflaraleikhúsið og unga listhópa sem vantar aðstöðu. Þar verður líka lítið krúttleikhús, fyrir nemendasýningar og smærri atvinnusýningar. Þetta rými er tilvalið fyrir ungt listafólk sem hefur ekki ráð á að leigja stóru leikhúsin. Við ætlum að fylla Nýsköpunarsetrið af lífi, það er strax uppselt á nokkur námskeið hjá okkur,“ segir Björk og bætir við að Gaflaraleikhúsið hafi aldrei verið með fleiri sýningar á sviðum í einu en akkúrat núna, þegar þau eigi ekki leikhús.
„Við verðum með fjórar leiksýningar á fjölunum í vetur. Leikritið Tóm hamingja var svo vinsælt í fyrra að við verðum með nokkrar aukasýningar í haust í Borgarleikhúsinu. Ég, Salka Sól og Selma Björns snúum aftur í Bæjarbíó með leikritið Bíddu bara, og sýningin Jól á náttfötunum með Gunna og Felix verður í Tjarnarbíói alla sunnudaga á aðventunni. Nýja leikritið okkar, Ekki hugmynd, verður svo sýnt í Borgarleikhúsinu í vetur, en höfundar þess eru þau Vigdís Hafliða, Óli Gunnar og Arnór Björnsson. Arnór og Óli hafa skrifað fyrir Gaflaraleikhúsið hvern hittarann á fætur öðrum, meðal annars Tóma hamingju og Vigdís hefur slegið í gegn í tónlist, sjónvarpi og uppistandssenunni. Í þessu nýja verki eru þau að taka fyrir tímabilið þegar fólk verður allt í einu fullorðið, komið yfir tvítugt og þarf að læra hvað viðbótarlífeyrissparnaður er og það allt saman. Fólk þarf að standa við stóru orðin og verða eitthvað, en á þessum aldri veit fólk ekki endilega hvað það ætlar að verða og fyllist valkvíða og frestunaráráttu. Þau ákváðu að setja upp þetta leikrit í framhaldi af þáttum sem heita Tuttugu og eitthvað, og verða sýndir á RÚV í vetur. Samstarf þeirra hófst við skrif þáttanna og þeim fannst svo ljómandi gaman að vinna saman og smelltu því í leiksýningu. Þau ætla að tala lóðbeint frá eigin hjarta í þessari sýningu og vonandi kitla hláturtaugarnar í leiðinni.“
Björk segir virkilega gaman fyrir þau í Gaflaraleikhúsinu að fá Egil Andrason nýútskrifaðan leikstjóra til liðs við sig, en hann leikstýrir verkinu Ekki hugmynd.
„Við höfum haft augastað á þessum leikstjóra í nokkurn tíma. Egill hefur sýnt og sannað að hann er frábær leikstjóri og það er gaman að gefa nýjum snillingum sviðið. Gaflaraleikhúsið framleiðir sýninguna í samstarfi við Borgarleikhúsið og við Gunni Helga verðum svona hundreyndir aðstoðamenn á hliðarkantinum. Ekki hugmynd er verk sem allir ættu að geta tengt við og hlegið að, ekki bara unga fólkið heldur líka við foreldrarnir og afar og ömmur. Mörg eigum við jú eintök af þessari dásamlegu krútt-snjókornakynslóð sem er orðin svo fullorðin og veit einhvern veginn allt betur, en samt erum við enn að panta tíma fyrir þau hjá tannlækni, hjálpa þeim með skattskýrsluna, kaupa með þeim íbúð og passa barnabörnin. Á sama tíma erum við svo gamaldags, kunnum ekki rétt kynjafornöfn, höfum aldrei farið til sálfræðings, aldrei verið greind með röskun og erum korter í PC-skandal.“
Björk segir gaman að geta endurnýjað leiklistarnámskeiðin sem kennd eru af fagfólki.
„Þau hafa alveg dottið niður eftir að við misstum húsnæðið okkar, en núna erum við að byrja aftur með leiklistarskóla í Hafnarfirði með Gaflóskólanum. Ég sit hér í hamingjukasti, því viðbrögðin eru svo góð og foreldrar ánægðir með að fá leiklistarkennslu í Hafnarfjörð aftur. Við erum bæði með almenn námskeið fyrir börn og ungmenni og inntökuprófanámskeið fyrir þá sem eru að hugsa um að sækja um framhaldsnám í leiklist. Við erum í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ með leiklistarval fyrir 8.-10. bekk í skólum í Hafnarfirði. Þetta nám er ekki bara hugsað fyrir krakka og ungmenni sem ætla sér að verða leikarar í framtíðinni, heldur fyrir alla sem vilja vinna bug á framkomukvíða og efla skapandi hugsun og sjálfsöryggi. Ég sé að börn og ungmenni sem fá slíka menntun koma aðeins keikari inn í framhaldsskóla, félagsstarf og starfsviðtöl, enda þarf að kenna þetta eins og allt annað.“ Nánar á gaflaraleikhusid.is og tix.is.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
Þú átt auðvelt með að gera málamiðlanir í vinnunni í dag. Ef munurinn er umtalsverður veistu hvað þú átt að velja, og ef hann er lítill skiptir ekki máli hvað þú ákveður.
Þú átt auðvelt með að gera málamiðlanir í vinnunni í dag. Ef munurinn er umtalsverður veistu hvað þú átt að velja, og ef hann er lítill skiptir ekki máli hvað þú ákveður.
