„Mig langaði til að hverfa“

Umboðsmaðurinn James Scully sagði ofurfyrirsætuna Christy Turlington flottustu fyrirsætu allra …
Umboðsmaðurinn James Scully sagði ofurfyrirsætuna Christy Turlington flottustu fyrirsætu allra tíma. Samsett mynd/Instagram

Í grein í breska Vogue frá júní 2015 er ástæðu þess að ofurfyrirsætan Christy Turlington ákvað að hætta í bransanum og fara í nám uppljóstrað. Það var ekki einungis fróðleiksþorsti sem dró hana inn á nýja braut heldur hafði hún hætt að reykja og var farin að bæta aðeins á sig. Fyrir vikið hlaut hún gagnrýni innan tískuheimsins í París þar sem hún starfaði. Þegar henni var vísað á dyr af einni sýningu sem hún átti að taka þátt í gaf það henni enn ærnari ástæðu til að fylgja innsæinu.

Þetta var árið 1996 og hóf Turlington B.A.-nám í trúarbragðafræði og austrænni heimspeki, þá 27 ára gömul. Á þessum tíma var hún ekki aðeins fyrirsæta heldur ein af ofurfyrirsætunum eða „the supermodels“ sem virtust eiga heiminn.

Naomi Campbell og Christy Turlington á forsíðu Vogue 1992. Myndin …
Naomi Campbell og Christy Turlington á forsíðu Vogue 1992. Myndin var tekin af ljósmyndaranum Arthur Elgort. Skjáskot/Instagram
Systurnar Kelly, Erin og Christy, ásamt móður þeirra Maríu Elizabeth.
Systurnar Kelly, Erin og Christy, ásamt móður þeirra Maríu Elizabeth. Skjáskot/Instagram

Byrjaði að reykja 13 ára

Turlington er fædd í Walnut Creek í Kaliforníu 2. janúar 1969, miðjubarn af þremur systrum. Faðir hennar, Dwain Turlington, var flugmaður hjá Pan Am-flugfélaginu og móðir hennar María Elizabeth var flugfreyja frá El Salvador. Turlington ólst upp í rómversk-kaþólskri trú og hélt hún í trúna fram á fullorðinsár.

Sem unglingur var hún ekki mjög áberandi og eflaust eins og aðrir bandarískir unglingar í San Fransisco, sem héngu á McDonald's. Hún byrjaði að reykja aðeins 13 ára gömul og var farin að reykja pakka á dag þegar hún var aðeins 16 ára.

Turlington var uppgötvuð af ljósmyndaranum Dennie Cody þegar hún var á hestbaki í Miami í Flórída þar sem faðir hennar starfaði um tíma. Hún hóf módelstörf meðfram skóla á aldrinum 14-16 ára og í sumarvinnu. Árið 1987, þegar hún var 18 ára, flutti hún til New York og fór þá á fullt í módelstörfin.

Christy á barnsaldri ásamt fjölskyldu sinni.
Christy á barnsaldri ásamt fjölskyldu sinni. Skjáskot/Instagram
Hjónin Ed Burns og Christy Turlington á tískuvikunni í Mílanó …
Hjónin Ed Burns og Christy Turlington á tískuvikunni í Mílanó í síðustu viku. Skjáskot/Instagram

Niðurlægingin 

Turlington hefur verið gift leikaranum og leikstjóranum Ed Burns í 21 ár. Þau kynntust á góðgerðarsamkomu árið 2000 og giftu sig í júní 2003. Þau eiga saman dótturina Grace, sem er 21 árs, og soninn Finn, 19 ára.

Í viðtali við The Philadelphia Inquirer í maí 2014 talaði Turlington um gæðin sem felast í foreldrahlutverkinu, sem hún sagðist vonast til að börnin hennar fengju einnig að upplifa. Í viðtalinu sagði hún einnig: „Börnin mín eru heppin að eiga tvær heilbrigðar, ástríðufullar manneskjur sem foreldra sem elska og virða hvor aðra sem jafningja.“

Turlington ásamt fjölskyldunni sinni.
Turlington ásamt fjölskyldunni sinni. Skjáskot/Instagram

Í heimi frægðar er foreldrahlutverkið þó ekki alltaf tekið út með sældinni og því fékk Turlington að kynnast þegar hún var stödd á körfuboltaleik sonar síns. Andstæðingar sonar hennar höfðu í fórum sínum nektarmynd af Turlington sem þeir létu ganga sín á milli. 

„Ég var hissa á að þetta hefði ekki gerst fyrr,“ sagði hún í forsíðuviðtali við Harper's Bazaar í apríl 2024. „En á sama tíma, var ég alveg: Þetta er svo dónalegt!“

Atvikið varð að mun stærra máli þegar skóli sonarins blandaðist í málið og sagði Turlington í viðtalinu: „Mig langaði til að hverfa.“

Ástin lifir.
Ástin lifir. Skjáskot/Instagram
Kersti Bowser, Christy Turlington, Cindy Crawford og Paulina Porizkov í …
Kersti Bowser, Christy Turlington, Cindy Crawford og Paulina Porizkov í auglýsingu fyrir snyrtivörumerkið Revlon. Skjáskot/Instagram

Ein af þeim allra bestu

Turlington var ansi áberandi á níunda og tíunda áratugnum. Hún hefur komið fram í herferðum fyrir vörumerkin Calvin Klein, Chanel, Marc Jacobs, Donna Karan, Versace og Max Mara, svo einhver séu nefnd. Þá hefur hún birst á fjölda forsíða helstu tískutímarita heims.

Turlington lék í tónlistarmyndbandi hljómsveitarinnar Duran Duran við lagið Notorious og sat fyrir á plötuumslagi hljómsveitarinnar árið 1986, þá aðeins 17 ára. Þá kom hún einnig fram í tónlistarmyndbandi söngvarans George Michael fyrir lagið Freedom! '90. Innblásturinn fyrir myndbandið fékk Michael frá forsíðumynd tímaritsins breska Vogue, í janúar 1990, af Turlington, Tatjönu Patitz, Naomi Campbell, Cindy Crawford og Lindu Evangelistu. Myndin var tekin af hinum fræga ljósmyndara Peter Lindbergh.

Linda Evangelista, Cindy Crawford, Naomi Campbell og Christy Turlington í …
Linda Evangelista, Cindy Crawford, Naomi Campbell og Christy Turlington í sýningu Versace fyrir haustlínuna 1991. Skjáskot/Instagram

Í áðurnefndu forsíðuviðtali tímaritsins Harper's Bazaar prýddi Turlington forsíðuna í 14. skipti á ferlinum, þá orðin 55 ára og í frábæru formi. Í viðtalinu við Turlington kom m.a. fram að þegar ofurfyrirsæturnar fimm komu fram í tónlistarmyndbandi George Michael við lagið Fredoom! '90 hafi orðið ákveðinn skurðpunktur þar sem hátíska færðist nær poppkúltúrnum.

Það voru svo Donatella og Gianni Versace sem tóku vinsældir tónlistarmyndbandsins enn lengra þegar þau fengu Turlington, Campbell, Crawford og Evangelistu til að ganga pallinn saman við Freedom! '90 á sýningu haustlínu Versace 1991, á meðan þær sungu með. 

Mynd sem hönnuðurinn Karl Lagerfield tók af Lindu Evangelistu og …
Mynd sem hönnuðurinn Karl Lagerfield tók af Lindu Evangelistu og Christy Turlington þegar þær voru í myndatöku fyrir Chanel á sínum tíma. Skjáskot/Instagram

Fjölhæf og vel þenkjandi

Árið 2010 stofnaði Turlington óhagnaðardrifin samtök, Every Mother Counts, í þeim tilgangi að gera þunganir og barnsfæðingar óhultar fyrir konur um víða veröld. Samtökin hafa stutt við bakið á yfir 1,5 milljónum kvenna, fjölskyldna og heilbrigðisstarfsmanna og fjárfest yfir 42 milljónum dala til vitundarvakningar í þróunarsamfélögum.

Í desember 2011 birtist viðtal við Turlington í tímariti Forbes í tilefni af útgáfu hennar á heimildamyndinni No Woman, No Cry, sem fjallar um stöðu á heilsu mæðra í fjórum löndum. Myndin var heimsfrumsýnd á Tribeca-kvikmyndahátíðinni 2010. 

Ofurfyrirsæturnar Kate Moss og Christy Turlington tóku þessa sjálfu fyrir …
Ofurfyrirsæturnar Kate Moss og Christy Turlington tóku þessa sjálfu fyrir um 30 árum í Nepal þegar þær voru í tökum fyrir breska Vogue. Skjáskot/Instagram

Þegar Turlington var spurð í viðtalinu af hverju heilsa mæðra væri henni svo ofarlega í huga svaraði Turlington: „Ég lifði af og þraukaði í gegnum fylgikvilla eftir fæðingu fyrsta barnsins míns fyrir átta árum. Á þeim tíma sem ég gekk í gegnum þetta komst ég að því að þessi sami fylgikvilli væri algengasta orsök mæðradauða á heimsvísu ...“

Turlington hefur tekið þátt í fjölda annarra verkefna og samstarfi eins og við húðvörulínuna Sundari. Þá hefur hún einnig hannað tvær fatalínur fyrir vörumerkið Puma. Turlington hefur einnig skrifað í blöð á borð við Marie Claire, Teen Vogue og Yoga Journal, en sjálf hefur hún iðkað jóga síðan 1987. Hún hefur einnig skrifað fyrir Huffington Post.

Í tilefni af 40 ára afmæli Turlington tók tímaritið W saman safn af eftirtektarverðum myndum frá ferli hennar, myndum af tískupöllunum á níunda áratugnum og fram á 21. öldina, en hún sneri aftur í bransann þrátt fyrir að hafa gert hlé á fyrirsætustörfum þegar hún hóf nám 27 ára. Bransinn hefur þurft á henni að halda, enda sagði umboðsmaðurinn James Scully, sem fann fyrirsætur í verkefni m.a. fyrir Tom Ford, Carolinu Herrera, Ninu Ricci og Stellu McCartney, Turlington vera flottustu fyrirsætu allra tíma.

Turlington gengur pallinn fyrir Thierry Mugler.
Turlington gengur pallinn fyrir Thierry Mugler. Skjáskot/Instagram



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er þér léttir að komast að því að nú eru peningar og bjargir til staðar og því unnt að gera úrbætur á vinnustað. Vertu vakandi yfir breytingum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Christina Lauren
2
Patricia Gibney
4
Steindór Ívarsson
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er þér léttir að komast að því að nú eru peningar og bjargir til staðar og því unnt að gera úrbætur á vinnustað. Vertu vakandi yfir breytingum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Christina Lauren
2
Patricia Gibney
4
Steindór Ívarsson
5
Unnur Lilja Aradóttir