Vertíð jólatónleika hefst senn og þessa dagana keppist tónlistarfólk við að auglýsa fyrirhugaða viðburði. Athygli vekur að fyrirtækið Concert hefur tekið að sér skipulagningu tvennra jólatónleika í Hörpu. Að baki fyrirtækinu stendur Einar nokkur Bárðarson sem var stórtækur í tónleikahaldi á árum áður en seldi Senu fyrirtækið á sínum tíma.
„Ég er í endurmenntun. Maður verður að gera þetta til að missa ekki réttindin,“ segir Einar Bárðar í léttum tón þegar Morgunblaðið slær á þráðinn.
Umræddir tónleikar kallast Komdu um jólin og fara fram í Hörpu hinn 5. desember. Fram kemur hópur af þekktu tónlistarfólki; Birgitta Haukdal, Salka Sól Eyfeld, Jón Jósep Snæbjörnsson, Bergsveinn Arilíusson, Gunni Óla úr Skítamóral og Klara Einars sem einmitt er dóttir tónleikahaldarans.
„Það þarf ekki að berja mig fram úr til þess að vinna með þessu fólki. Ég hlakka mikið til,“ segir Einar.
Hann segist hafa hætt öllu stórtónleikahaldi árið 2012 en þá fékk hann til landsins Elvis Costello og James Taylor. „Þarna var ég búinn með þessa listamenn sem ég vissi að ég gæti náð í að utan og meikaði sens að halda tónleika með hér á landi. En svo hef ég verið með nokkra litla tónleika og verið einhverjum innan handar í gegnum tíðina.“
Þótt Einar hafi minnkað umsvif sín í tónleikahaldi hefur hann síður en svo sagt skilið við tónlistarbransann. Í dag er hann til að mynda stjórnarformaður Tónlistarmiðstöðvar Íslands og kveðst líta á sig sem fulltrúa umboðsmanna og tónleikahaldara í stjórninni, enda eigi þeir ekki annan fulltrúa þar.
Einar segir að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann ætli að fara með stórtækum hætti aftur inn á tónleikamarkaðinn. „Nei, ég er kominn með prýðilega innivinnu þar sem eru skemmtileg og gefandi verkefni. Hins vegar hef ég svigrúm til að sinna þessu og öðru sem kætir mig í mínum aukatíma.
Það er gaman að gera eitthvað með vinum sínum með þessum hætti og ef eitthvað kemur upp getur verið að maður slái til. Þessir tónleikar núna komu til af því okkur fannst vanta partí-jólatónleika.“
Tilkynnt var um það í október árið 2006 að Sena hefði keypt ráðandi hlut í Concert ehf., tónleika- og umboðsfyrirtæki Einars. Mikið var látið með kaupin sem voru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Síðan þá hefur vegur Senu í tónleikahaldi vaxið mikið en Einar hefur að mestu haldið sér til hlés. Hví dúkkar þá Concert aftur upp? Á það félag ekki að vera ofan í skúffu hjá Senu?
„Sena keypti af mér tónleikarekstur Concert og umboðsbatteríið hér heima. Þarna var ég kominn upp fyrir haus í verkefnum úti í London með Nylon. Svo bættist Garðar Cortes við. Ég hafði meira en nóg að gera og gat ekki sinnt þessu nóg,“ segir Einar sem segir að nokkur forsaga hafi verið að þessum kaupum.
„Á þessum tíma var enn þá verið að selja plötur og ég og Sena bjuggum til lítið verkefni saman. Ég var verkstjóri Plan B og stýrði útgáfu Nylon og Cortes. Ég sá um listamennina og Sena gaf út.
Síðan kemur Ísleifur Þórhallsson inn í Senu með sína starfsemi. Þá runnu á mig tvær grímur, ég var ungur og fullur af sjálfum mér, og hafði áhyggjur af því að Sena væri í samstarfi við mig á einum stað en samkeppni á öðrum,“ segir Einar og bætir við að í kjölfarið hafi hafist viðræður um kaup Senu á hlut í Concert.
Á síðari stigum hafi komið til tals að hann gæti fengið að halda nafninu enda lægi fyrir að hann ætlaði ekki að vera stórtækur í tónleikahaldi. „Þetta var kannski meira af tilfinningaástæðum en öðrum og það voru einhverjar kvaðir um að ég myndi ekki nota það í einhvern tíma.“
Einar segir að Sena Live hafi síðan verið í stórsókn og enginn komist með tærnar þar sem fyrirtækið hefur hælana í tónleikahaldi. Mikil fagmennska einkenni fyrirtækið.
„Tónleikahald í dag, eins og hjá fagfólkinu hjá Senu Live, er þannig að þú þarft bara að vera í því eingöngu. Það stendur ekki til hjá mér að fara í neitt svoleiðis. Ég er orðinn of gamall í það og finnst þægilegra að geta sofið á nóttunni.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
Til þess að geta hjálpað öðrum þarftu fyrst að hafa öðlast frið með sjálfum þér. Farðu ekki of geyst heldur taktu eitt skref í einu og þá farnast þér vel.
Til þess að geta hjálpað öðrum þarftu fyrst að hafa öðlast frið með sjálfum þér. Farðu ekki of geyst heldur taktu eitt skref í einu og þá farnast þér vel.
