Nýjasta Instagram-færsla bandarísku leikkonunnar Amy Schumer hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum síðasta sólarhringinn.
Á myndinni stendur hún brosandi við hlið vinkvenna sinna, kvikmyndaframleiðandans Alex Saks og leikkonunnar Jillian Bell, klædd í glæsilegan svartan Miu Miu-kjól og hælaskó í stíl.
Það er þó ekki kjóllinn, þótt glæsilegur sé, sem hefur vakið mesta athygli heldur nýtt og frísklegt útlit Schumer.
Leikkonan, sem er hvað þekktust er fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við Trainwreck, Snatched og I Feel Pretty, auk uppistandsins síns, hefur grennst verulega á undanförnum mánuðum með hjálp sykursýkislyfsins Mounjaro, sem inniheldur virka efnið semaglútíð.
Schumer hefur rætt opinskátt um reynslu sína af hinu svokallaða grenningarlyfi og viðurkenndi í mars að hún væri byrjuð að sprauta sig með lyfinu Mounjaro.
„Mounjaro hefur verið frábært,“ sagði hún í myndbandi á Instagram og bætti við að lyfið væri aðeins niðurgreitt fyrir þá sem glímdu við sykursýki eða alvarlega offitu – „sem flestir á netinu halda að ég sé með,“ sagði hún í léttum tón.
„Ég hef haft mjög góða reynslu af því,“ bætti hún við. „Og ég vildi vera hreinskilin við ykkur um það.“
Mounjaro er þó ekki eina lyfið sem Schumer hefur prófað í tengslum við þyngdartap. Hún hafði áður notað Wegovy, en upplifði þá mikla vanlíðan og hætti fljótt notkun þess.
Fjöldi vina og aðdáenda hefur hrósað Schumer fyrir glæsilegt útlit, og margir sérstaklega tekið eftir löngum fótleggjum hennar. Meðal þeirra sem skrifuðu athugasemdir við færsluna eru leikkonurnar Isla Fisher og Amy Sedaris ásamt grínistanum Chelsea Handler.