Leikarinn Aaron Phypers sótti um skilnað frá leikkonunni Denise Richards í júlí. Frænka Phypers bar vitni fyrir rétti í gær og sagði frá ítrekuðu ofbeldi leikarans gagnvart Richards.
Richards og Phypers byrjuðu saman árið 2017 og giftu sig í Malibu í september 2018, aðeins tveimur sólarhringum eftir að þau tilkynntu um trúlofunina. Phypers sótti um skilnað frá Richards í sumar þar sem hann fór m.a. fram á að fá mánaðarlegar greiðslur frá leikkonunni. Richards sakar Phypers um að hafa beitt hana ofbeldi og fór fram á tímabundið nálgunarbann á hann um miðjan júlí, en hefur nú óskað eftir að það verði ótímabundið.
McAllister starfaði á heilsusetri leikarans árin 2017-2022. Hún hefur nú sagt frá atviki sem átti sér stað á bílastæði fyrir utan skrifstofur setursins í Malibu. „Hann tók hana hálstaki og sló höfði henni upp að veggnum sem olli heilahristingi,“ sagði hún þegar hún bar vitni og bætti við að hún hafi haft af þessu miklar áhyggjur.
Hún segist einnig hafa orðið vitni að ofbeldi Phypers gegn Richards sem varð til þess að leikkonan flúði inn á snyrtingu á skrifstofu heilsusetursins þaðan sem hún sendi McAllister textaskilaboð. Þá á hann einnig að hafa slegið Richards í andlitið, í viðurvist McAllister, og hlaut hún ljótt mar og glóðarauga.
Richards var gift leikaranum Charlie Sheen 2002-2006. Hún skaust fyrst á stjörnuhimininn í kvikmyndinni Starship Troopers (1997) og síðar í Wild Things (1998) og James Bond: The World Is Not Enough (1999). Hún hefur síðustu ár komið fram í raunveruleikaþáttunum The Real Housewives of Beverly Hills og sápuóperunni The Bold and the Beautiful. Hún á tvær dætur með Sheen, Sam og Lolu, og ættleiddi dótturina Eloise Joni Richards, sem Phypers ættleiddi einnig eftir að þau giftu sig árið 2018.
Gert er ráð fyrir að réttarhöldin vari fram á morgundaginn.