Leikkonan Francia Raisa, sem gaf söngkonunni Selenu Gomez nýtt líf með nýrnagjöf árið 2017 eftir að hún greindist með sjúkdóminn rauða úlfa (e. lupus), var spurð um ósætti þeirra á milli í nýju viðtali og sagði hún rifrildið einungis vera slúður.
Raisa var ekki viðstödd brúðkaup söngkonunnar þegar hún gekk í það heilaga með upptökustjóranum Benny Blanco 27. september. Í brúðkaupinu voru fjölmargir frægir á borð við söngkonuna Taylor Swift, leikarann Steve Martin, söngkonuna Zoe Saldana, söngvarann Ed Sheeran og systurnar Paris og Nicky Hilton.
Viðtalið var tekið áður en Gomez gifti sig og óskaði Raisa söngkonunni alls hins besta: „Ég veit hún er að fara að gifta sig, og ég samgleðst henni innilega. Og sjáðu ... hún á líf og hún er nú þegar milljarðamæringur og ég er þakklát fyrir að hafa gert þetta fyrir hana,“ sagði Raisa og vísaði til nýrnagjafarinnar.
Áður hefur komið fram að það var Gomez sjálf sem bað Raisu um nýra, sem hrundi af stað getgátum aðdáenda leikkonunnar um hvort hún hefði fundið fyrir þrýstingi að verða við beiðninni.
Eitthvað slettist upp á vinskapinn hjá þeim stöllum þegar Gomez sagði í viðtali við The Rolling Stone að eina vinkona hennar í bransanum væri Taylor Swift. Þær hafa lítið talast við síðustu ár, en segjast þó ekki eiga í erjum. Aðdáendur Raisu tóku strax eftir að henni var ekki boðið í brúðkaupið þegar hún birti myndskeið af sér að dansa um það leytið sem athöfnin fór fram.