Á samfélagsmiðlasíðunni Meet Cutes NYC birtast reglulega skemmtileg myndskeið þar sem pör á götum New York-borgar segja frá því hvernig þau kynntust.
Síðan, sem fór í loftið í febrúar 2023, hefur notið gríðarlegra vinsælda – enda virðist heimurinn aldrei fá nóg af góðum ástarsögum. Núna fylgja henni rúmlega þrjár milljónir manna á Instagram og þar fá fylgjendurnir sinn daglega skammt af rómantík.
Eitt nýjasta myndskeiðið hefur, líkt og fyrri myndbönd síðunnar, vakið mikla athygli. Þar er rætt við hjón sem hafa verið gift í 31 ár og eru enn jafn ástfangin og daginn sem þau hittust fyrst.
Sagan þeirra gæti hæglega hafa verið tekin beint úr kvikmynd eftir Noru Ephron: Þau gengu fram hjá hvort öðru á fjölfarinni götu árið 1994, litu hvort á annað og hrifust við fyrstu sýn. Þau héldu þó hvort í sína áttina án þess að segja orð – en eins og í góðri rómantískri kvikmynd höfðu örlögin önnur plön.
Síðar sama dag var konan á leið heim af blindu stefnumóti þegar hún sá manninn aftur, og þá í stigaganginum í blokkinni sinni. Þá kom í ljós að þau voru nágrannar en höfðu aldrei rekist hvort á annað áður.
Fimm dögum síðar fóru þau á fyrsta stefnumót sitt og ákváðu þar og þá að þau ætluðu að giftast. Tuttugu og níu dögum eftir að þau sáust fyrst gengu þau í hjónaband.
Færslan hefur fengið hátt í hálfa milljón læka og nærri tíu þúsund athugasemdir, þar sem netverjar segja hana fallegt dæmi um að ástin finni alltaf leið – jafnvel í fjölmennustu borg heims.
Og fyrir ykkur sem viljið smá Ephron-töfra er um að gera að kveikja á kertum, leggjast upp í sófa og setja When Harry Met Sally, Sleepless in Seattle eða You’ve Got Mail í tækið, ef svo má að orði komast, – því það er varla hægt að hugsa sér betri kvöldstund, hvort sem þú ert ein/n eða með ástinni þinni.
Hér má sjá umrætt myndskeið: