Bandaríski leikarinn og Óskarsverðlaunahafinn George Clooney ræddi opinskátt um reynslu sína af fíkniefnum og samband sitt við áfengi í viðtali við tímaritið Esquire.
Leikarinn prýðir forsíðu nýjasta tölublaðsins og fer þar um víðan völl í ítarlegu viðtali.
Clooney, sem er 64 ára, segir að hann hafi „fiktað með kókaín og þess háttar“ þegar hann var að hefja feril sinn í Hollywood á níunda áratugnum, en að neyslan hafi aldrei verið sérstakt vandamál.
„Ég var vanur að grínast með að ég hefði tekið of mikið af fíkniefnum, en sannleikurinn er sá að það var aldrei neitt stórt vandamál fyrir mig,“ sagði Clooney.
Hann bætti við að á þeim tíma hefði kókaín verið talið „ekki ávanabindandi“.
Leikarinn sagðist þó aldrei hafa verið hrifinn af marijúana og rifjaði upp atvik þegar hann, ásamt vinum sínum, borðaði hasskökur og horfði á Galdrakarlinn í Oz (The Wizard of Oz) á meðan tónlist Pink Floyd ómaði úr hátölurum.
„Við vorum fokking rænulausir,“ sagði hann. „Við sögðum ekki eitt orð í klukkutíma eftir myndina. Marijúana er bara ekki mitt dóp.“
Clooney, sem er giftur tveggja barna faðir, ræddi einnig samband sitt við áfengi og viðurkenndi að hafa gengið í gegnum tímabil þar sem hann drakk of mikið.
„Ég vaknaði aldrei og byrjaði að drekka, en það voru tímabil þar sem ég varð ansi hífaður á hverju kvöldi,“ sagði hann.
Leikarinn, sem þreytti frumraun sína á Broadway fyrr á árinu í leikverkinu Good Night, and Good Luck, sagði að hann hefði verið edrú í þrjá mánuði meðan á sýningum stóð – að undanskildu einstaka vínglasi á sunnudögum.
Bindindinu lauk þó í eftirpartíi að lokinni Tony-verðlaunahátíðinni í júní.
„Ég varð blindfullur – gat varla staðið uppréttur,“ rifjaði hann upp.
Hann sagði þó að kvöldið hefði endað á góðum nótum:
„Ég kom heim með [eiginkonunni] Amal og var bara hlæjandi. Við lágum í rúminu og ég sagði: Jæja, ég bætti upp fyrir allt bindindið á einni nóttu. Ég var veikur allan næsta dag – það var bráðfyndið. Ég var eins og menntaskóladrukkinn, eins og algjör bjáni drukkinn.“
Þess má geta að Clooney laut í lægra haldi á Tony-verðlaununum fyrir Cole Escola, sem hreppti verðlaunagripinn fyrir leik sinn í Oh, Mary!