Leikararnir Al Pacino og Diane Keaton voru sundur og saman í um 15 ár, ást sem byrjaði á setti trílógíunnar um guðföðurinn (e. The Godfather) snemma á áttunda áratugnum.
Keaton, sem lést 79 ára á laugardaginn í Kaliforníu, lék kærustu Pacinos í kvikmyndunum. Þau hættu saman árið 1990 eftir að Keaton gaf honum afarkosti en hann vildi ekki hjónaband.
Pacino, sem er 85 ára, segist nú óska þess að hann hefði gengið í það heilaga með leikkonunni þegar hann hafði tækifæri til. „Ég veit að hann mun sjá eftir því ævilangt að hafa ekki nýtt tækifærið þegar hann hafði það,“ sagði heimildarmaður í samtali við Daily Mail.
Pacino á að hafa sagt í gegnum árin að það væri aldrei of seint að gera hlutina upp á nýtt, en nú er það svo.
Árið 2017 var Keaton í viðtali við the Sunday Times þar sem hún sagði að litið til baka væri í raun betra að þau tvö hefðu aldrei gengið í hjónaband. „Við erum bæði sérvitur, hann þarfnaðist konu sem myndi sjá um hann, ég þarfnaðist manns sem myndi sjá um mig ... Það var í raun mikilvægt að við létum hvort annað í friði, segðum bless,“ sagði Keaton í viðtalinu. „En það var ekki mitt val.“
Keaton gifti sig aldrei, en á fimmtugsaldri ættleiddi hún tvö börn, dótturina Dexter, sem er 29 ára, og soninn Duke, sem er 25 ára. Pacino hefur heldur aldrei gift sig. Hann á fjögur börn: Julie Marie, 35 ára, tvíburana Anton og Oliviu, 24 ára, og soninn Roman, tveggja ára.