„Það er gleðiefni fyrir okkur að fá að taka þátt í uppbyggingu menningarstarfsemi á jafn spennandi svæði og Gufunesið er. Að reisa okkur rými til lífs, leiks og lista í beinni tengingu við verðandi íbúa. Það er vissulega tilhlökkunarefni að ganga til liðs við þá grósku sem nú þegar blómstrar í hverfinu og fá að setja mark okkar á áframhaldandi menningarstarf í borginni,“ sagði Gísli Örn Garðarsson leikari og framleiðandi hjá Vesturporti en leikhópurinn hefur fengið vilyrði fyrir lóð í Gufunesi í Grafarvogi.
Nokkur áhersla hefur verið á að fá fyrirtæki í kvikmyndaiðnaði til að setjast að í Gufunesi og er leikhúsið kærkomin viðbót við flóruna, en hópurinn hefur getið sér góðan orðstír í báðum greinum. RVK Studios, kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Baltasars Kormák, er einnig á staðnum.
Vesturport var stofnað árið 2001 og kjarninn í hópnum eru hjónin Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir og hjónin Björn Hlynur Haraldsson og Rakel Garðarsdóttir. Vesturport hefur framleitt vinsælar sjónvarpsþáttaseríur eins og Verbúðina og Fanga og sett vinsæl leikrit á svið hérlendis og erlendis.
Á kynningafundi um Athafnaborgina á föstudag var Gísli Örn, sem er í forsvari fyrir Vesturport, boðið upp á svið til að undirrita ásamt Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra í Reykjavík.