Leikkonan Elizabeth Taylor, sem sumir segja eitt af kyntáknum fyrri tíðar en aðrir segja hafa verið of fágaða til að vera kyntákn, átti ansi skrautlegt einkalíf. Þegar brúðkaup var annars vegar tvínónaði hún ekkert við hlutina, af hverju ætti hún svo sem að hafa gert það?
Taylor átti sjö eiginmenn um ævina, gifti sig átta sinnum og átti að baki sjö skilnaði. Jú, hún gifti sig sama manninum tvisvar. Taylor missti einn eiginmann sinn sem lést í flugslysi. Hún trúlofaði sig einnig einu sinni án þess að það næði lengra.
Taylor átti fjögur börn: Michael Wilding Jr., fæddur 1953, Christopher Wilding, fæddur 1955, Lizu Todd, fædd 1957, og Mariu McKeown, fædd 1964, sem hún ættleiddi.
Taylor var fædd í Lundúnum í febrúar 1932 og afrekaði ýmislegt annað um ævina en að gifta sig. Hún var hæstlaunaða kvikmyndastjarnan á sjöunda áratugnum, byrjaði ung að leika og fór síðar á ævinni með aðalhlutverk í fjölda þekktra kvikmynda á borð við Giant (1956), Cat on a Hot Tin Roof (1958), Cleopötru (1963) og Who's Afraid of Virginia Woolf? (1966).
Hver voru svo þessi glæsimenni sem eignuðust tímabundið hug og hjarta leikkonunnar?
Taylor var einungis 17 ára og dvaldi hjá frænda sínum við ströndina í Miami þegar hún svaraði bónorði 28 ára gamals útvarpsstöðvareiganda, William Pawley Jr., játandi. Þetta var árið 1949. Hún saknaði ferilsins í Kaliforníu og sneri þangað aftur til að halda áfram að starfa sem leikkona. Eitthvað fór það öfugt ofan í herrann því hann „bað um hringinn aftur“ nokkrum mánuðum síðar á meðan hún var við tökur á A Place in the Sun.
Taylor lagðist ekki niður og grét í koddann eftir trúlofunarslitin við Pawley því í október 1949 hitti hún Conrad Hilton Jr., erfingja Hilton-hótelkeðjunnar, á Mocambo-næturklúbbnum í Vestur-Hollywood, sama kvöld og Pawley sleit sambandinu við hana. Taylor og Hilton Jr. trúlofuðu sig 1950, þegar Taylor var 18 ára og hann 23 ára. Hjónabandinu lauk á aðeins 205 dögum vegna drykkju Hilton Jr. og ofbeldis af hans hálfu.
Taylor varð ákaflega skotin í breska leikaranum Michael Wilding þegar hún rakst á hann í Lundúnum við tökur á myndinni Ivanhoe (1952). Taylor varð ólétt að fyrsta barninu og eignaðist soninn Michael Wilding Jr., árið 1953 og tveimur árum seinna, Christopher Wilding. Ferill leikkonunnar hélt áfram að blómstra en ástin ekki og skildu þau árið 1957.
Framleiðandinn Mike Todd var 25 árum eldri en Taylor. Þau giftu sig í Acapulco 1957. Besti vinur brúðgumans, Eddie Fischer, var svaramaður við athöfnina. Taylor eignaðist dótturina Elizabeth „Lizu“ Francis í ágúst sama ár. Todd lést í flugslysi á einkaflugvél í Nýju-Mexíkó 22. mars 1958, þá fimmtugur. Taylor átti að vera um borð í vélinni en var heima lasin.
Söngvarinn og leikarinn Eddie Fischer fór frá þáverandi eiginkonu sinni, Debbie Reynolds, til ekkjunnar Taylor. Þegar skilnaður Fischer og Reynolds var genginn í gegn giftu þau Fischer og Taylor sig, í maí 1959, í Las Vegas. Hún sagði síðar að hún hefði hrifist af Fischer til að halda í minninguna um Todd og hefði í raun aldrei elskað Fischer. Hún sagði hjónabandið hafa verið „hræðileg mistök“.
Taylor lék á móti Richard Burton í kvikmyndinni Cleopötru (1962). Hann hafði verið giftur Sybil Burton síðan 1949 þegar þau Taylor áttu í framhjáhaldi sem hneykslaði heimsbyggðina og sérstaklega Vatíkanið í Róm. Sybil fór frá eiginmanni sínum 1963 en Taylor hafði einungis verið skilin við Fischer í fáeina daga þegar hún strengdi heitin með Richard. Hann ættleiddi Lizu, dóttur Taylor, ásamt Mariu, sem var í ættleiðingarferli þegar Taylor var gift Fischer.
Taylor og Burton léku saman í þó nokkrum kvikmyndum, þ.á.m. Who's Afraid of Virginia Wolf?, sem Taylor hlaut Óskarsverðlaun fyrir. Parið stundaði mikla drykkju og þreyttist eitthvað á sambúðinni og árið 1974 skildu þau. Aðskilnaðurinn virtist þeim þó ofviða og tóku þau saman aftur ári síðar þegar þau giftu sig í Kasane, í Botswana. Þau skildu aftur 1976 en vináttan hélst þó út ævi Burtons, en hann lést í ágúst 1984.
Taylor féll fyrir John Warner, sem starfaði sem ritari í hernum í tíð Richards Nixon, eftir að hann fylgdi henni til kvöldverðar á vegum Elísabetar II Englandsdrottningar í breska sendiráðinu sumarið 1976. Þau giftu sig í desember sama ár. Í nóvember 1978 var Warner kosinn í öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem hann starfaði í 30 ár, en hjónabandið með Taylor entist ekki nema í sex ár.
Það leið „óvenju“ langur tími frá skilnaði Taylor við Warner þar til hún fann sér nýjan eiginmann. Sá heppni var byggingaverkamaðurinn Larry Fortensky og var ekki nema 20 árum yngri en hún. Þann 6. október 1991 giftu þau sig á búgarði söngvarans Michaels Jacksons í Neverland. Þau skildu fimm árum síðar en héldu vináttunni allt þar til Taylor lést, 23. mars 2011, þá 79 ára.
Sonur Taylor sagði eitt sinn í viðtali við The Guardian að það hefðu í raun ekkert verið svo margir menn í lífi móður sinnar, hún giftist einfaldlega þeim sem hún fór út með. Hann skildi ekkert af hverju fjölmiðlar hefðu gert svona mikinn mat úr því í gegnum tíðina. Mikið er hægt að vera sammála honum.